144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

uppbygging Vestfjarðavegar.

113. mál
[15:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Haraldur Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil sem aðrir þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir samvinnuna við þingmenn kjördæmisins og hvernig hún hefur haldið á þessu máli. Mér finnst sú eina yfirlýsing hafa fallið frá hendi innanríkisráðherra sem skiptir máli, þ.e. að lausn verði að liggja fyrir sem fyrst. Það er í raun það sem við viljum öll keppa að.

Í öðru lagi vil ég segja að búið er að leggja á borðið hugmyndir um nýja leið í gegnum þetta viðkvæma svæði sem gerir ráð fyrir miklu minna inngripi en áður. Sú gagnrýni sem hefur komið fram hefur greinilega skipt máli því að menn hafa tekið hana alvarlega. En eins og hv. þm. Elín Hirst sagði þá líður mörgum eins og búin hafi verið til óendanleg stjórnsýsluflækja. Það er óskiljanlegt fyrir mörgum sem eiga mikið undir því að þessi vegalagning fari fram til viðbótar við þær miklu framkvæmdir sem þegar eru komnar og er að ljúka. Það verður að liggja fyrir sem fyrst hvernig framkvæmd þessa máls verður. Ég lýsi því þá yfir að sú leið sem nú hefur verið lögð fram, að fara fram á endurupptöku, er í mínum huga leið sem ég get fullkomlega stutt og styð.

Ég minni aftur á að það má ekki líða mikill tími. Við megum ekki vera í þoku og óvissu með þetta mál í mjög langan tíma því að mikil verðmæti eru undir. Þarna eru miklir hagsmunir undir, byggðalegir og hagsmunir atvinnulífs á svæðinu.