144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

uppbygging Vestfjarðavegar.

113. mál
[15:51]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég ítreka þakkir til hv. þingmanns og til þingheims alls fyrir þessa umræðu og þá samstöðu sem ég held að ríki um þetta mikilvæga verkefni á þessum stað.

Ég vil taka undir það sem hv. þingmenn nefndu þegar rætt var um að ákveðnar samgöngubætur hefðu orðið á þessu svæði sem væru mikilvægar. Ég held að það sé hárrétt. Það er talsverður munur að aka um þetta svæði nú en var fyrir nokkrum árum. Það er ágætt að halda því til haga en betur má ef duga skal. Verkefnið þarf að klára. Þingheimur getur alveg treyst því að sú sem hér stendur mun leggja sitt lóð á vogarskálarnar í því efni. Ég held að við munum öll standa saman að því.

Varðandi það sem nefnt var í máli hv. þm. Guðbjartar Hannessonar, um samstarf eða viðræður við landeigendur, þá er alveg skýrt í huga mínum og hjá ríkisvaldinu að við erum reiðubúin til samstarfs við landeigendur. Við viljum tryggja að við náum sátt um verkefnið og liður í því er gott samstarf við þessa aðila.

Hins vegar verð ég að halda því til haga, því að það er oft nefnt í þessari umræðu, að leiðin í gegnum Teigsskóg er ekki sú eina. Það er hárrétt, en engu að síður er það talin öruggasta leiðin og hún er talin hagkvæmust. Það sem gleymist oft í þessari umræðu er að það er líka ágreiningur um aðrar leiðir. Það er því ekki eins og í boði sé önnur leið sem sé fullkomin sátt um og við getum hafið framkvæmdir án þess að það kosti tíma, fyrirhöfn eða sérstaka umræðu og athugun. Við erum ekki stödd á þeim stað. Það kemur fram í matsskýrslu frá Vegagerðinni að ágreiningur sé um allar þær leiðir sem á þessu svæði liggja. Ætla má að fara þurfi sérstaka sáttarleið í öllu því samhengi. Kostnaðurinn er auðvitað minni af þessari leið og öryggi sérstaklega mikið. Mín skoðun er sú og ég ítreka hana að það sé farsælast að vinna málið þannig, en ég tek undir með öllum hv. þingmönnum sem hafa nefnt það í þessu samhengi að tíminn skipti miklu. Ef endurupptökuleið gengur ekki upp og það skýrist innan nokkurra mánaða þá verðum við að huga að öðrum leiðum.