144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

menntun íslenskra mjólkurfræðinga.

188. mál
[16:12]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Í upphafi máls míns vil ég taka það fram sökum þeirrar umræðu sem hv. þingmaður vakti varðandi stöðu starfs- eða verknáms almennt að nú þegar hefur verið skipaður sérstakur verkefnahópur sem er að vinna tillögur um breytingar á starfsnámi. Ég á von á því að sá hópur skili tillögum um áramótin. Hópurinn hefur kallað til sín á samráðsfund fulltrúa einna 30 aðila úr atvinnulífinu og skólalífinu og allra þeirra sem hafa beina aðkomu að uppbyggingu starfsnáms. Eins hafa aðrir sem eru með formlegum hætti tengdir þessu fengið ákveðin verkefni, úrlausnarefni til að vinna að. Þessi vinna er í gangi núna.

Reyndar er rétt að taka það fram, af því að við munum ræða samstarf okkar við Dani varðandi mjólkuriðnaðinn, að ég átti ágæta fundi með danska menntamálaráðherranum í sumar þar sem við ræddum meðal annars breytingar á starfsnámi hjá Dönum. Fyrirhuguð er ferð til Danmerkur til þess að grafast fyrir um þær lausnir sem þeir hafa fundið.

Hvað varðar þær spurningar sem hv. þingmaður hafði hér uppi vil ég fyrst segja hvað varðar samninginn, hvernig honum er háttað við Dani, að Íslendingar hafa ekki gert sérstakan samning við Dani um nám íslenskra mjólkurfræðinema þrátt fyrir að áratugahefð sé fyrir því að íslenskir mjólkurfræðinemar fari til Danmerkur til að ljúka námi í iðninni. Hins vegar er í gildi samningur milli Norðurlandanna um norrænt menntasamfélag á framhaldsskólastigi. Í 1. gr. samningsins er þó tekið fram að samningurinn taki ekki til starfsþjálfunar þegar um er að ræða ráðningarsamning við fyrirtæki rekið af einkaaðila eða opinberum aðila þar sem starfsþjálfun er hluti af starfsréttindanámi á framhaldsskólastigi. Ég vona að þetta hafi verið skýrt.

Í öðru lagi: Hvernig gengur samstarfið? spyr hv. þingmaður. Samstarfið við Dani um nám mjólkurfræðinga hefur almennt verið með ágætum, bæði við danska menntamálaráðuneytið og við þann skóla sem annast kennsluna, Kold College. Þó skal upplýst að árið 2011 komu upp ákveðin vandkvæði, sem eru væntanlega þeir atburðir sem hv. þingmaður vísaði til og var tilefni fyrirspurnarinnar, þegar yfirvöld í Danmörku samþykktur nýjar reglur um nám erlendra nemenda sem hafa í för með sér stóraukinn kostnað þeirra af námi sínu. Fræðslunefnd í mjólkuriðn óskaði eftir liðsinni mennta- og menningarmálaráðuneytisins til þess að finna leið til að lækka þann kostnað. Við tóku bréfaskriftir og önnur samskipti milli ráðuneytanna tveggja, fræðslunefndarinnar og skólans. Ekki er enn fundin lausn á fyrirliggjandi vanda og hafa því engir nýir nemar í mjólkuriðnaði verið teknir inn frá árinu 2011. Fyrirspurnin er ágætt tilefni til þess að endurvekja þetta samtal við dönsk stjórnvöld og við skólann og sjá hvort einhverju sé hægt að hnika. Þetta byggir sem sagt, virðulegi forseti, á reglum sem Danirnir hafa sett um þetta nám og kostnað.

Í þriðja lagi er spurt: Hvað eru margir íslenskir nemendur við nám í mjólkurfræði í Danmörku sem stendur? Svarið er að fjórir íslenskir nemendur munu halda utan til Danmerkur til náms í mjólkuriðn í nóvember nk. en þeir hófu nám samkvæmt eldra skipulagi og geta því lokið námi sínu á grundvelli eldri reglna.

Í fjórða lagi spyr hv. þingmaður hversu mörgum hafi verið synjað um skólavist í Danmörku og á hvaða forsendum. Þá er til að taka að ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um að íslenskum nemendum hafi verið synjað um skólavist í Danmörku enda fara einungis þeir nemendur utan sem tryggð hefur verið skólavist fyrir tilstilli fræðslunefndar í mjólkuriðn. Þó skal áréttað að á meðan ekki hefur verið leyst úr vanda við fjármögnun námsins munu nýir nemendur ekki hefja nám við Kold College.

Í fimmta lagi spyr hv. þingmaður hvaða möguleikar séu á skólavist fyrir nemendur sem vilja leggja stund á þetta nám hérlendis eða erlendis. Skólinn í Danmörku, virðulegi forseti, er sá eini á Norðurlöndum sem býður upp á nám í mjólkuriðn. Ekki er unnt að ljúka skólanámi í mjólkuriðn hér á landi. Ráðuneytið mun nú leita upplýsinga um hvaða önnur lönd bjóða upp á nám í mjólkuriðn sem gæti gagnast hér.

Í sjötta lagi spyr hv. þingmaður hvort uppi séu áform um að menntun í þessari iðngrein geti alfarið farið fram hér á landi. Ekki eru uppi áform um að slíkt nám geti farið fram að öllu leyti hér á landi.

Ég hef leitast við að svara eftir bestu getu þeim athugasemdum sem þingmaðurinn hefur haft fram að færa. Ég tel að um sé að ræða athyglisvert mál sem við þurfum að skoða nánar.