144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

menntun íslenskra mjólkurfræðinga.

188. mál
[16:17]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Elínu Hirst fyrir fyrirspurnina og þau svör sem hæstv. menntamálaráðherra kom með, sem eru mér mikill fróðleikur. Ég vil þó samt segja í tengslum við þessa umræðu að í mínum huga hefur það verið ein af gæfum íslensks mjólkuriðnaðar að hafa þurft að sækja þessa menntun á erlenda grundu. Ég held að það hafi skipt gríðarlega miklu máli fyrir stöðu mjólkuriðnaðarins á Íslandi í dag.

Annað sem ég vil leggja inn í umræðuna er fækkun mjólkurstöðva og minni þörf fyrir mjólkurfræðinga, sem aftur leiðir okkur inn í umræðuna sem við tókum nýlega í þessum sal og er samkeppni í mjólkuriðnaði. Ég hvet því menntamálaráðherra til þess að taka þetta mál föstum tökum og þær upplýsingar sem hann hefur upplýst okkur um hér, því að það skiptir máli að við getum haldið áfram að framleiða, ef ég má nota það orð, mjólkurfræðinga til þess að ala upp fleira slíkt fagfólk fyrir þau fyrirtæki sem vilja hasla sér (Forseti hringir.) völl í mjólkuriðn á Íslandi. Þetta er mjög þörf umræða og ég tek hana alvarlega og hvet menntamálaráðherra til þess að taka föstum tökum það sem hann upplýsti hér.