144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

menntun íslenskra mjólkurfræðinga.

188. mál
[16:23]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn á ný fyrir fyrirspurnina. Einnig vil ég þakka öðrum hv. þingmönnum fyrir þátttökuna í þessum umræðum. Ég get tekið undir það að þegar þetta mál er krufið blasir við að bæði er um áhugavert mál að ræða en líka brýnt. Auðvitað getur það ekki gengið til lengdar að það líði of langur tími á milli þess að við sendum fólk til náms erlendis til að nema mjólkurfræði. Ég hef því falið embættismönnum mínum að líta aftur á þetta mál og samskiptin við þennan skóla og Dani til þess að sjá hvort einhverju verði hnikað. Ef það er ekki hægt þarf að skoða aðra kosti.

Hvað varðar það sem fram kom hér í umræðunni varðandi samninga á milli Norðurlandanna um norrænt menntasamfélag á framhaldsskólastigi þá vil ég endurtaka það sem ég nefndi í upphafsræðu minni að í fyrstu grein samningsins er tekið fram að samningurinn taki ekki til starfsþjálfunar þegar um er að ræða ráðningarsamning við fyrirtæki rekið af einkaaðila eða opinberum aðila þar sem starfsþjálfunin er hluti af starfsréttindanámi á framhaldsskólastigi. Það er rétt að hafa þetta í huga.

Síðan er hitt: Hvernig á að standa að fjármögnuninni á námi þessara nemenda? Þá er eðlilegt að menn horfi til ríkisins. Það er kannski líka spurning hvort eigi að horfa til greinarinnar í heild eða mjólkuriðnaðarins, hvort þaðan geti komið auknir námsstyrkir til að styðja við nemendur í þessu fagi. Það er sjálfsagt að skoða alla möguleika sem uppi eru á borðinu.

Ég ítreka að lokum þakkir mína til hv. þm. Elínar Hirst fyrir þessa fyrirspurn.