144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að í Afríku geisar núna mannskæðari faraldur en sögur hafa lengi farið af. Næstum því 5 þús. manns eru fallin í valinn í Vestur-Afríku og á þeim svæðum sem ebólan hefur leikið verst lýsa fjölmiðlar spítölum eins og víti á jörðu.

Það verður því miður að segjast alveg eins og er að Vesturlönd hafa verið ákaflega sein að taka við sér. Áhyggjur okkar sem þar búum hafa einkum lotið að því hvort smit mundi berast til okkar og það var ekki fyrr en þess tók að gæta að Vesturlönd tóku við sér. Forustumenn alþjóðasamtaka eins og Sameinuðu þjóðanna undrast það enn hversu lítið hinar auðugu þjóðir á Vesturlöndum láta af höndum rakna í þá sjóði sem við notum sameiginlega til þess að berjast gegn þessum grimma vágesti.

Þá ber kannski að rifja það upp sem fyrrverandi landlæknir, Sigurður Guðmundsson, sagði, að besta leið Vesturlanda og Íslands líka til þess að takast á við og koma í veg fyrir að smit bærist þangað væri að takast á við ebóluna á heimavígstöðvunum, þ.e. í Afríku.

Það verður líka að segjast alveg eins og er að Íslendingar hafa ekki staðið sig neitt sérstaklega vel. Alþingi gerði á sínum tíma góða samþykkt um framlög til þróunarmála en Íslendingar hafa ekki staðið við hana. Í nýlegri skýrslu sem utanríkisráðuneytið lét gera í sumar kemur fram að aðstoð til mannúðarmála er óvanalega lítil af hálfu Íslendinga miðað við sambærilegar þjóðir. Ef við tökum ebóluna sjálfa hefur íslenska ríkisstjórnin af mikilli rausn ákveðið að verja til hennar 12 millj. kr. Það er um það bil 1/10 af því sem ákveðið var að auka framlög til aðstoðar í gegnum NATO eins og hendi væri veifað.

Ég vil því nota þetta tækifæri og skora á ríkisstjórn Íslands að sýna meiri rausn, meiri skilning og samúð með þeim samfélögum sem eru að kikna undan ebólunni í Afríku og margfalda (Forseti hringir.) framlögin og það fyrr en seinna. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)