144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Það styttist allverulega í að stærsta mál Framsóknarflokksins, þ.e. leiðréttingin, nái fram að ganga. Loksins munu þau heimili sem bera verðtryggð húsnæðislán sjá leiðréttinguna birtast á greiðsluseðlum lána sinna. Það er sérstaklega jákvætt að sjá þessa aðgerð verða að veruleika og að komið verði til móts við skuldsett heimili. Ánægjulegt er það meðal annars vegna þess að þann 3. desember árið 2010 fengu íslensk heimili þau skilaboð að ekki yrði meira gert í þeirra málum. Svo ég vitni beint í orð þáverandi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, þá sagði hún í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins, með leyfi forseta:

„Við erum búin að ganga eins langt og við mögulega getum.“

Einnig sagði hún, með leyfi forseta:

„Ég verð að segja það að það er ekki hægt að vænta þess að við komum með fleiri aðgerðir.“

Svo ég staldri nú ekki of lengi við fortíðina og beini athyglinni að núverandi aðgerðum hefur ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar ákveðið að skattleggja þrotabú gömlu bankanna og ná þaðan 80 milljörðum, þeim milljörðum sem hafa farið frá heimilum landsins undanfarin ár yfir til fjármálastofnana. Verið er að skila heimilum landsins ákveðnum hluta til baka. Það er ekkert annað en sanngirnismál og löngu kominn tími til.

Auk þessa er rétt að benda á að um fjórðungur af heildarupphæð leiðréttingarinnar fer til heimila með árstekjur undir 4 millj. kr. Dæmi: Hjón sem hafa hvort um sig 160 þús. kr. í mánaðarlaun. Tæplega helmingur leiðréttingarinnar fer til heimila undir 6 millj. kr. á ári. Dæmi: Hjón með 250 þús. hvort í mánaðarlaun. Um 60% leiðréttingarinnar fer til heimila þar sem árstekjur eru undir 8 millj. kr. Dæmi: Tveir kennarar. Einnig fara 80% leiðréttingarinnar til fólks sem skuldar meira en helming í eignum sínum.

Ég er algjörlega ósammála þeim þingmönnum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sem hafa talað hér í þingsal á þann hátt að ofangreindir hópar séu hátekjufólk og þurfi ekki á leiðréttingunni að (Forseti hringir.) halda.

Virðulegur forseti. Slík ummæli (Forseti hringir.) eru að öllu leyti ósanngjörn.