144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við Íslendingar erum friðsöm þjóð, herlaus og höfum lagt áherslu á að halda niðri vopnaburði, þar með talið vopnaburði lögreglu. Þá sjaldan alvarlegir atburðir verða bregst sérsveitin við. Þetta fyrirkomulag hefur reynst okkur vel. Það er þess vegna algjörlega óhugsandi að innanríkisráðherra hafi heimilað stórfelld vopnakaup fyrir almenna lögreglu í landinu án þess að ræða það við þjóðina og þingið.

Hvað sem mönnum kann að þykja um breytingar sem gera þurfi í þessum efnum þá er þetta grundvallarmál. Þetta er breyting á samfélagi okkar. Sú breyting varðar öryggi lögreglumanna og lífsnauðsynlegt að hún fái vandaða umræðu, að allir geti komið að henni, fróðustu aðilar, svo að við getum rætt hvernig þessum málum er best skipað.

Ég neita að trúa því að innanríkisráðherra hafi, án nokkurrar umræðu í samfélaginu eða í þinginu, heimilað stórfelld vopnakaup. Ég neita líka að trúa því að 500 millj. kr. fjárveiting, sem samþykkt var í þinginu, hafi verið nýtt í þessu skyni; fjárveiting sem átti að efla almenna löggæslu í landinu.

Ég held að allir þingmenn hljóti að geta verið sammála um að ef gera á jafn verulega stefnubreytingu og hér um ræðir verði að gera þá lágmarkskröfu til ráðherrans að hún sæki sérstaka fjárveitingu til hins tilgreinda efnis en lögreglan sé ekki með leynd vopnavædd án nokkurrar lýðræðislegrar umfjöllunar þar um.

Ég tel mikilvægt að þingið taki þetta mál strax til umfjöllunar og fái það staðfest að (Forseti hringir.) innanríkisráðherra hafi ekki veitt slíkar heimildir án nokkurrar umræðu eða umboðs þar til. (Gripið fram í.)