144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil gera sjálfboðaliðastarf að umtalsefni mínu í dag. Hér á landi eins og víða annars staðar vinnur fjöldi fólks að ýmsum sjálfboðaliðastörfum. Um land allt er fólk á vaktinni tilbúið að yfirgefa fjölskyldu sína og vinnu til að koma öðrum til aðstoðar í neyð. Ýmsar stofnanir um allt land eru byggðar upp að stórum hluta á gjafafé frá félögum sem hafa aflað fjár til tækjakaupa og uppbyggingar og aðstöðu.

Um síðastliðna helgi stóð Rauði krossinn, í samstarfi við Klúbb matreiðslumanna, fyrir landsæfingu þar sem 48 fjöldahjálparstöðvar um allt land voru opnaðar. Þar stóðu sjálfboðaliðar Rauða krossins vaktina líkt og um raunverulegt hættuástand væri að ræða. Á síðustu vikum höfum við verið rækilega minnt á kraft náttúruaflanna og hve óútreiknanleg þau geta verið. Það er staðreynd að við búum við stöðuga hættu og hér getur skapast mikil neyð á örskammri stundu. Ég vil þakka þetta framtak og minna á framlag þeirra fjöldamörgu sem leggja sitt af mörkum.

Björgunarsveitir landsins eru um 100, dreifðar um allt land. Þær leggja metnað sinn í að hafa góðan tækjabúnað og vel þjálfaðan mannskap. Um 4.000 manns eru á vaktinni allt árið allan sólarhringinn og útköll eru að jafnaði um 1.200 á ári. Á síðustu tólf mánuðum voru verkefni þar sem ferðamenn komu við sögu 2.563 og voru 4.817 ferðamenn aðstoðaðir í þeim verkefnum. Þess ber að geta að inni í þessum tölum er hálendisvakt björgunarsveita, bein útköll utan hálendisvaktar voru um 500 síðastliðna tólf mánuði.

Aukið álag er nú vegna yfirstandandi eldgosa og hafa björgunarsveitir á Austurlandi og Mývatni staðið gosvaktina í um það bil tvo mánuði. Nú minnir vetur konungur á sig í fyrsta skipti á þessum vetri. Í gær voru sex útköll vegna ófærðar og eitt vegna óveðurs. Þetta telst víst ekki mikið miðað við aðstæður, en dagurinn í dag verður strembnari.

Ég vil hvetja okkur öll til að virða vinnu þessa fólks (Forseti hringir.) og haga ferðum okkar í samræmi við tilmæli þeirra sem til þekkja.