144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Virðulegi forseti. Það er eilífðarverkefni þingmanna að ná tökum á ríkisfjármálunum. Ein af forsendum þess að vel takist til er að allar upplýsingar liggi fyrir og að hv. þingmenn hafi aðgang að öllum nauðsynlegum upplýsingum. Þetta á ekki síst við um stofnanir og fyrirtæki á vegum hins opinbera, sem eru fjármögnuð að stærstum hluta úr ríkissjóði.

Nú er svo komið að ríkisfyrirtæki, opinbert hlutafélag, treystir sér ekki eða telur sér ekki heimilt að veita hv. Alþingi, fjárveitingavaldinu, eða fjárlaganefnd nauðsynlegar upplýsingar í vinnu við gerð fjárlaga fyrir árið 2015 og ber fyrir sig að fyrirtækið sé opinbert hlutafélag og með skráð skuldabréf í Kauphöll Íslands og sé það því ekki heimilt nema að gera alla 63 hv. þingmenn eða a.m.k. fjárlaganefnd í heild að innherjum. Það er eitthvað brogað í löggjöf um opinber hlutafélög.

Ég hygg að hv. Alþingi verði að huga að því að breyta lögum um opinber hlutafélög og tryggja það að ríkisfyrirtæki beri ekki fyrir sig að þau geti ekki upplýst fjárveitingavaldið um rekstur og efnahag á grundvelli þess að skuldabréf fyrirtækisins séu skráð í Kauphöll Íslands. (Gripið fram í.)

Svo enginn af hv. þingmönnum velkist í vafa (Forseti hringir.) þá er hér átt við Ríkisútvarpið ohf. (Gripið fram í.)