144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Nægt fjármagn til að tryggja þjálfun og búnað lögreglu er mikilvægt til að hægt sé að ætlast til þess af lögreglunni að hún sinni skyldum sínum með sem minnstri hörku. Það hefur verið íslenskt sérkenni að lögreglumenn gangi ekki vopnaðir. Einhver umræða hefur átt sér stað hér áður um að hugsanlega ættu þeir að ganga með rafbyssur.

Þegar umræðan hófst vegna þessara 0,5 milljarða kr. fjárframlaga, sem ég tel mikilvæg til þess að efla þjálfun og búnað lögreglunnar, spurðist ég fyrir um það hvort menn ætluðu að fara út í rafbyssur. Það var hummað einhvern veginn fram af sér.

Ég bjóst fullkomlega við því að þurfa einn daginn að mótmæla einhverjum ákvörðunum sem yrðu teknar í þeim efnum en það hefði aldrei hvarflað að mér að ég hefði átt að spyrja á þeim tíma hvort þetta færi ekki örugglega ekki í 200 MP5-hríðskotabyssur. Ég hef spilað nógu marga tölvuleiki um ævina, virðulegi forseti, til að vita nákvæmlega hvaða vopn þetta eru. Þetta eru drápstæki. Það að hafa 200 stykki hjá lögregluliði sem telur 600–700 manns þykir mér fráleitt miðað við það fyrirkomulag sem við höfum búið við, fyrirkomulag sem fólk hefur almennt verið sátt við.

Mér finnst það grundvallaratriði að þegar svona stórar spurningar eru bornar fram fari sú umræða fram hér. Fyrirkomulagið hefur verið þannig að ráðherra ákveður þetta, lögreglan er undanskilin vopnalögum samkvæmt 3. gr. vopnalaga. Það hefur ríkt traust til þessa valds hjá framkvæmdarvaldinu. Þessar fréttir rýra það traust.

Ég hef nú þegar óskað eftir sérstökum umræðum um þetta málefni í þinginu, þ.e. um vopnaburð lögreglunnar og valdbeitingarheimildir hennar. Ég vona að við getum átt þær umræður sem allra fyrst. Eins og hv. þm. Helgi Hjörvar nefndi áðan þurfum við að taka þetta mál til rækilegrar umræðu í þinginu sem allra fyrst.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.