144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

þingstörf fram undan.

[14:08]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni í einu og öllu. Það var samt sem áður ekki þess vegna sem ég kvaddi mér hljóðs heldur vegna þess að hingað barst breyting á því hvaða hæstv. ráðherrar yrðu hér í fyrirspurnatíma á morgun. Þá kemur í ljós að hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra verður hér ekki. Síðast var hún til svara 6. október. Það verður ekkert þing í næstu viku þannig að hugsanlega yrði félags- og húsnæðismálaráðherra hér 3. nóvember. Mér finnst ekki hægt að bjóða þingmönnum upp á þetta, ég hef beðið eftir því að geta spurt ráðherrann spurninga sem á mér hvíla, sem ég held að aðrir hefðu kannski gaman af að heyra og fróðlegt væri að fá svör við. Mig langar að biðja hæstv. forseta, sem er lausnamiðaður maður, að eiga orðastað við ráðherrann og athuga hvort hún getur ekki breytt fyrirætlunum sínum á morgun.