144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

þingstörf fram undan.

[14:11]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað til þess að lýsa áhyggjum mínum af störfum þingsins hvað varðar nefndastörf og hvernig mál ber að. Sjálfur er ég fulltrúi í allsherjar- og menntamálanefnd og hef ítrekað upplifað að þangað koma gríðarlega stór mál beint frá ráðherrum án þess að þau hafi hlotið nokkra umræðu, án þess að þau hafi verið kynnt á nokkurn einasta hátt jafnvel þó að við höfum setið með ráðherrunum í umræðum um verkefni vetrarins.

Það mál sem hér hefur verið rætt um og þarf að ræða að sjálfsögðu í allsherjar- og menntamálanefnd er byssumálið, vopnavæðing lögreglunnar, sem er gríðarlega mikil stefnubreyting og hefði átt að berast inn í þingið frá ráðherra sem eitt af stefnumálum vetrarins.

Sambærileg mál eru menntamálin þar sem við fáum hvítbók þar sem boðaður er samráðsvettvangur og umræða um ákveðin mál, en allar stærstu ákvarðanir eru teknar utan þeirrar bókar, t.d. mál sem varða til dæmis 25 ára regluna, að tala um ungmennaskóla og að annað eigi að fara í fullorðinsfræðslu og símenntun. Við fáum stór stefnumál um landbúnaðarháskólana o.s.frv. — við getum auðvitað krafist funda með látum og djöfulgangi (Forseti hringir.) en þessi vinnubrögð eru óþolandi fyrir Alþingi Íslendinga. (HHG: Heyr, heyr.)