144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[14:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Verður fulls jafnræðis gætt? Er búið að lagfæra lögin núna þannig að fulls jafnræðis eða fullrar sanngirni verði gætt? Fá allir sem hafa orðið fyrir tjóni af völdum hrunsins sitt bætt? Þetta er mjög stór spurning og ég treysti mér ekki til að fullyrða að svo sé. Hins vegar verður þess gætt með þessari lagfæringu á lögunum að meira jafnræðis verði gætt, a.m.k. þannig að þeir sem eru í svipaðri stöðu fái ekki mjög ólíka úrlausn mála sinna. Það er það sem að er stefnt.

Hvað varðar hinar spurningarnar um frumvarpið og þær umræður sem áttu sér stað á síðasta þingi þegar málið var í heild sinni til umræðu þá er það annað mál. Nefndinni var núna falið það verkefni að fjalla um þessa breytingu og lagfæra lögin eins og þau lágu fyrir, en ekki að víkka út eða fjalla um málefni sem vissulega var fjallað mjög mikið um á sínum tíma. Núna er frekar verið að fjalla um hvernig hægt sé að sjá til þess að þau ákvæði og markmið sem eru í lögunum nái betur fram að ganga án þess að auka á ósanngirni eða mismunun.