144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[15:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það hefur hent mig áður í ræðustól að yfirsjást framsóknarmenn í salnum. Getur hæstv. forseti upplýst mig um hve margir þingmenn flokksins eru staddir hér? (Gripið fram í: Þeir eru tveir.) Þeir eru tveir af nítján. Það lýsir ágætlega þeim almenna flótta sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt á þegar skuldamál heimilanna og kosningaloforð flokksins við skuldsett heimili eru annars vegar.

Hér eru fluttar ræður hver á fætur annarri, efnismiklar og málefnalegar um þetta umfjöllunarefni, sett fram gagnrýnisatriði af einum núverandi formanni stjórnmálaflokks í landinu, öðrum fyrrverandi formanni, fjárlaganefndarfulltrúa og Framsóknarflokkurinn treystir sér ekki einu sinni til að koma upp í andsvör við ræður þeirra. Þingmenn flokksins hafa yfir höfuð fundið sér eitthvað annað að gera en að vera við umræðuna um stærsta kosningaloforð sögunnar, 300 milljarðana sem verja átti í skuldaniðurfærslu heimilanna, 20% leiðréttinguna á forsendubrestinum. Svo lítið varð af þeim hlutum öllum að þeir eru meira að segja hættir að koma upp í andsvör til að reyna að halda uppi vörnum fyrir þau almennu svik sem þetta mál allt hefur endað í. Þá erum við náttúrlega ekki farin að tala um þá einföldu staðreynd sem menn geta lesið um á bloggi hæstv. forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrir kosningar þar sem hann skrifar mikið um tillögur hópsins á snjóhengjan.is um að hægt sé að ná 800 milljörðum af þrotabúum föllnu bankanna. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hæstv. forsætisráðherra, vísar sérstaklega í þær tillögur sem honum þykja augljóslega raunsæjar í kosningabaráttunni og segir að brýnasta verkefnið sé að ganga í að skipta upp eignum þrotabúanna. Ef ekki sé hægt að gera það eftir samningaleiðinni sé einfalt að gera það hratt og skattleggja þau bara.

Það má segja að sannarlega er hluti af þessu máli viðleitni til að skattleggja þrotabúin, við skulum ekki gera lítið úr því. En skattlagningin er ekki 800 milljarðar, hún er ekki 800 milljarða talan af snjóhengjan.is sem formaður Framsóknarflokksins vísaði til fyrir kosningar. (Gripið fram í.) Nei, hún er 80 milljarðar. Er eitthvað af þessu komið í hús? Er eitthvað af þessum fjármunum komið í ríkissjóð? Nei, það hygg ég að sé ekki eða hvað, hv. þm. Frosti Sigurjónsson? Er eitthvað af þessum 80 milljörðum komið í ríkissjóð? Nei, svo hygg ég að sé ekki.

Ég hygg líka að uppi sé ágreiningur um lögmæti skattsins og þess vegna eigi eftir að láta á það reyna hvort skattheimtan tekst. Hvað sem því líður er hér um að ræða skattlagningu á lögaðila og í fyrsta lagi verður að hafa þann almenna fyrirvara að ástæða er til að hafa áhyggjur af því að þeir sem eiga þrotabúin muni leita leiða til að endurheimta álagningu ríkisins með einum eða öðrum hætti. Nærtækast sé auðvitað að gera það í gegnum bankana sem þeir eiga með því að auka vaxtamun og hækka þjónustugjöld í fjármálakerfinu sem heimilin borga síðan. Það er að minnsta kosti ástæða til að hafa áhyggjur af því að að hluta til muni heimilin greiða þennan kostnað sjálf í gegnum þá leið.

Þá er í öðru lagi rétt að hafa í huga að þetta er skattlagning á lögaðila og í raun og veru er miklu nær að skoða heildstætt skattlagningu á lögaðila, hvernig farið er með skattlagningu lögaðila og hins vegar einstaklinga. Þó að Framsóknarflokkurinn vilji merkja þessa skattlagningu sérstaklega þessum aðgerðum hér má auðvitað allt eins segja að með skattlagningunni á þrotabúin sé verið að fjármagna afnám auðlegðarskattsins og lækkun á veiðigjöld. Þá væri horft á skatta lögaðila og eignarskatta í samhengi. Það sem verið er að leggja á þrotabúin er eignarskattur eins og auðlegðarskatturinn sem verið er að afnema og ég hugsa að tölurnar séu af svipaðri stærðargráðu. Auðlegðarskattur er náttúrlega afnuminn yfir lengri tíma en látum það liggja á milli hluta. Þetta eru svipaðar stærðargráður, hvor liður um sig hleypur a.m.k. á mjög mörgum tugum milljarða, kannski upp undir 100 milljarða.

Hitt er miklu eðlilegra að horfa á skattlagninguna á fólkið í landinu, einstaklingana og það sem gert er fyrir heimilin sérstaklega, bætur og aðra slíka hluti. Þá blasir við mynd sem Framsóknarflokkurinn virðist eiga erfitt með að viðurkenna, en hún er út af fyrir sig ekki mjög flókin. Hún er þannig að niðurfærslan sem við erum hér að tala um nemur 73 milljörðum samkvæmt upplýsingum fjármálaráðuneytisins vegna þess að 7 milljarðar af þeim 80 milljörðum sem heildarkostnaðurinn er eru annar kostnaður og vaxtakostnaður framtíðarinnar. Niðurfærslan er því 73 milljarðar kr. Hverjar eru nú skuldir heimilanna í landinu? Ég hygg að ég muni það rétt að þær hafi í árslok samkvæmt Hagstofu Íslands verið 1.927 milljarðar. Það er einfaldlega þannig að 73 milljarðar af 1.927 eru 3,788%. Við getum sagt 3,8% til að nota afrúnnaðar tölur. Leiðrétting á skuldum heimilanna er ekki 20% heldur 3,8% þegar grannt er skoðað.

Þá hafa stöku framsóknarmenn sagt: Jú, þetta er rétt hjá þér, Helgi. Skuldir heimilanna voru 1.927 milljarðar um síðustu áramót og þessi er leiðréttingin en þetta er ekki sanngjarnt. Það er eðlilegt að líta til húsnæðisskulda en ekki til annarra skulda heimilanna. Nú skulum við gefa því sjónarmiði tækifæri. Það breytir því ekki að það sem ég sagði um skuldir heimilanna og hlutfall niðurfærslunnar af þeim er rétt, en það er sjónarmið að horfa eigi bara til húsnæðisskuldanna. Einhverjir úr ranni framsóknarmanna hafa haldið því fram að þær séu aðeins 2/3 hluti af þessari 1.927 milljarða tölu, eða 1.242 milljarðar. Tökum þetta sjónarmið Framsóknarflokksins og skoðum það í ljósi niðurfærslunnar. Þá hygg ég að ef menn nota vasareikninn sinn ættu þeir að komast að þeirri niðurstöðu að 73 milljarðar af húsnæðisskuldum heimilanna, 1.242 milljörðum, séu 5,8%.

Við getum deilt um það hvort niðurfærslan sé 3,8% af öllum skuldum heimilanna eða hvort sanngjarnara sé að líta svo á að um sé að ræða 5,8% af húsnæðisskuldum heimilanna. Ég geri ekki mikið með það hvora töluna við tökum. Ég held að ég hafi almennt í umræðunni notað um 5%. Ég held að það liggi nógu nærri því að vera talan á milli tæpra 4% annars vegar og tæpra 6% hins vegar Þetta er plús/mínus 5% niðurfærsla á skuldum heimilanna. Og hvað er Framsóknarflokkurinn þá að færa heimilunum í bætta afkomu? Við þurfum náttúrlega að skoða það í ljósi þess hversu margir munu fá að njóta úrræðanna. (FSigurj: 80 milljarðar.) — 73 milljarðar, hv. þingmaður. 7 milljarðar er kostnaður framtíðar.

Nú vitum við ekki nákvæmlega hversu mörg heimili munu njóta niðurfærslunnar. Framsóknarflokkurinn veit það kannski en á þessu stigi höfum við ekki gleggri upplýsingar en þær en að 69 þúsund heimili hafi sótt um hana, samkvæmt fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins. Ef þau fá öll leiðréttingu lætur nærri að þessir 73 milljarðar séu um 1 millj. og 57 þús. kr. á hvert heimili. Þessu hefur verið mótmælt og sagt að það sé rangt, þetta sé 1,1 millj. kr. Ég leyfi mér að segja að þetta sé nógu nærri því sem um ræðir til að við getum glöggvað okkur á stærðargráðunum. En allt í lagi, ekki 1 millj. og 57 þús. kr., gefum því bara séns að þetta séu 1.100 þús. kr. sem dreifast á fjögur ár og gera þá 275 þús. á ári. (ELA: Kemur sem eingreiðsla.) Já, allt í lagi, segjum að þetta sé 1.100 þús. kr. eingreiðsla, höldum ekki hinu til haga sem þó er raunar rétt. (Gripið fram í.) Þetta er 1.100 þús. kr.

Ég er í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og ef ég ætla að taka lán upp á 1,1 millj. kr. get ég farið inn á heimasíðu þess ágæta sjóðs og þar er reiknivél sem segir mér hvað það kostar. Ég hygg að það sé rétt munað hjá mér að fyrsta afborgun sé rétt tæplega 4.400 kr. og kannski 6.200 kr. tæplega í meðalafborgun, ef við miðum við 1.100 þús. kr. Menn verða að afsaka að tölurnar eru svona ónákvæmar hjá mér af því að ég reiknaði þetta upphaflega út frá milljón, þar man ég að þetta var 3.990 kr. á mánuði í fyrstu afborgun og að meðaltali 5.600 kr. Ef við gefum Framsóknarflokknum það að þetta sé ekki 1 millj. kr. heldur 1.100 þús. kr., 10% meira, er þetta eitthvað aðeins meira. Það jafngildir greiðslubyrði af slíku láni upp á um 4.400 kr. til 6.200 kr. (KLM: Það bætast við 248 kr. á …) Það munar auðvitað um það. Mörg heimili munar um 5, 6 eða segjum jafnvel 7 þús. kr. á mánuði í greiðslubyrði. Sumir eru kannski með styttra eftir í lánunum og þetta getur verið 8–9 þús. kr. hjá þeim. Við skulum alls ekki gera lítið úr því. En við skulum þó muna að hér er bara um að ræða rétt liðlega helming heimila í landinu sem njóta þessa. Heimili á leigumarkaði, fólk sem á ekki húsnæði og borgar háa húsaleigu nýtur þessa ekki.

Hvað er svo Framsóknarflokkurinn að gera með hinni hendinni? Með hinni hendinni er Framsóknarflokkurinn að hækka neðra þrepið í virðisaukaskatti, ég hef sagt um 5 prósentustig. Það er kannski ekki rétt að tala um þá hlutfallstölu. Sumir vilja tala um 71% hækkun á matarskattinum svokallaða. Mér finnst það ekki gefa rétta mynd. Mér finnst það vera ýkjukenndur eða áróðurskenndur málflutningur þó að út fyrir sig sé það rétt út frá tölunum; það er verið að hækka matarskattinn um 71%, úr 7% í 12%. En mér þykir það gefa sanngjarnari mynd af veruleikanum að segja að verið sé að hækka úr 7 í 12%.

Hvað þýðir það? Það þýðir að 5% skattur bætist á hverja 100 þús. kr. matvöru sem menn hafa verið að greiða í þessu skattþrepi. Þetta er náttúrlega líka hækkun á húshitun og ýmsar aðrar nauðsynjavörur heimilanna taka klárlega þessari hækkun. Þá hafa menn sagt: Já, en það koma aðrir hlutir á móti. Lækkanir á öðrum hlutum muni koma á móti.

Nú höfum við sem neytendur slæma reynslu af slíkum lækkunum. Hækkanir á álögum ganga yfirleitt vel eftir út í vöruverðið en lækkanir skila sér ekki alltaf. Ég tók t.d. eftir því að hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson taldi að nauðsynjar mundu hækka um 3,4%. Þá gengur hann væntanlega út frá því að lækkanirnar gangi að fullu fram, að um 1/3 af 5% hækkuninni gangi til baka, nauðsynjar hækki um 3,4%. Þá hef ég leyft mér að spyrja: Eru þau heimili sem eiga erfitt með að ná endum saman almennt í betri stöðu eftir slíka aðgerð en áður? Ég bið hv. þingmenn að koma ekki hingað upp og tala um vörugjöld af heimabíóum, nuddpottum eða byggingarvörum eða einhverju öðru slíku sem mótvægisaðgerðir. Það eru engar mótvægisaðgerðir. Það mun ekkert lækka mánaðarleg útgjöld venjulegs launafólks. Takið eftir því að ég nota bara þá tölu sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson notaði um hækkun á nauðsynjum, 3,4%.

Nú er matarliðurinn að minnsta kosti jafn hár í rekstri venjulegs heimilis í landinu og afborganir lána. Ef annar liðurinn lækkar um 3,8%, eins og skuldirnar mundu gera í þessu sambandi, en nauðsynjar hækka á móti um 3,4% verður ekki séð að það sé neitt auðveldara en áður að ná endum saman. Og fyrir öll heimilin sem fá ekki neitt, t.d. heimili sem hafa verið í mjög erfiðari skuldastöðu og farið í gegnum 110%-leið vegna þess að þau eru ákaflega skuldsett, og t.d. heimili sem berjast á leigumarkaði með mjög háa húsaleigu og fá ekki neitt, eru nauðsynjarnar bara að hækka því það kemur ekkert hinum megin. Þetta á líka við um fólkið í búseturéttaríbúðum sem fær heldur ekki neitt.

Ég get haft skilning á því að viðkvæmt sé fyrir Framsóknarflokkinn að standa andspænis þessum staðreyndum en staðreyndir eru það, því verður ekki á móti mælt. Þess vegna hlýtur maður að spyrja þegar flokkurinn hefur núna ákveðið að lækka skuldirnar um 3,8% eða segjum húsnæðisskuldirnar um 5,8% en hækka skattlagningu á matvöru í neðra virðisaukaskattsþrepi og á húshitun og aðra slíka liði um 5 prósentustig á móti — gefum okkur jafnvel að mótvægisaðgerðir skili sér og hækkun á nauðsynjum verði bara 3,4%: Hvar er þá afkomubatinn sem hv. þingmenn Framsóknarflokksins lofuðu? Hvar eru öll hástemmdu loforðin um að grípa til verulegra aðgerða fyrir skuldsett heimili? Ég get að minnsta kosti sagt hv. þingmönnum að þær er ekki að sjá í vaxtabótum í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár vegna þess að í vaxtabótaliðnum í fjárlögum fyrir næsta ár er ekki að finna nema 7,7 milljarða.

Þegar mest lét í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur voru útgreiddar vaxtabætur og sérstakar vaxtaniðurgreiðslur rúmir 19 milljarðar, á núvirði 21,3 milljarðar eða 13,6 milljörðum meira í vaxtabætur en á að greiða á næsta ári. Þær vaxtabætur voru einkanlega greiddar heimilum sem voru ekki í hátekjuhópi, voru ekki stóreignaheimili. Þessi skuldaniðurfærsla Framsóknarflokksins verður hins vegar greidd öllum, líka þeim sem borga stóreignarskatt, líka þeim sem eiga gríðarlega mikið eftir í lok hvers mánaðar og þurfa ekkert á framlögum úr ríkissjóði að halda.

Það er einfaldlega þessi efnislega og málefnalega gagnrýni sem hefur hreinsað hér bekkina í þingsalnum og gert að verkum að hér er flutt ræða eftir ræðu eftir ræðu án þess að nokkur þingmanna Framsóknarflokksins reyni að skýra sjónarmið flokksins. Og erum við þó ekki farin að koma að verðtryggingunni. Ég fagna því að við sáum hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra á ráðherrabekknum áðan, kannski hún sé þar enn þá. Hún mælir a.m.k. fyrir málum hér á eftir og ég vona að hún heyri mál mitt vegna þess að drjúgur hluti af loforðum Framsóknarflokksins var afnám verðtryggingarinnar. Hvað er að frétta af afnámi verðtryggingarinnar, hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra? Jú, það er að frétta að Framsóknarflokkurinn hefur gagnvart Íbúðalánasjóði, lánastofnun ríkissjóðs, þeirri lánastofnun sem Framsóknarflokkurinn hefur tök á, ákveðið að falla frá áformum um að bjóða upp á óverðtryggð lán. Framsóknarflokkurinn í ríkisstjórn með ráðuneyti félags- og húsnæðismála hefur ákveðið að þeirra eigin lánastofnun, Íbúðalánasjóður, skuli bara bjóða verðtryggð lán.

Það er eitt og hálft ár frá kosningum, verðtryggingin hefur ekki verið afnumin. Það sem tókst á síðasta kjörtímabili var að innleiða óverðtryggð lán sem valkost í viðskiptabönkunum. Hér var síðan farið í lagabreytingu til að gera Íbúðalánasjóði heimilt að hefja útgáfu óverðtryggðra húsnæðislána. Og hvað gerist þegar Framsóknarflokkurinn kemur í ríkisstjórn og ræður félags- og húsnæðismálum í landinu í ráðuneyti hæstv. ráðherra Eyglóar Harðardóttur? Þá dregur úr óverðtryggðum lánum í bankakerfinu og bankarnir auka útgáfu verðtryggðra lána til viðskiptavina sinna. (Gripið fram í.)

Látum það vera, Framsóknarflokkurinn ræður því ef til vill ekki að í stað þess að afnema verðtrygginguna aukist hún í bankakerfinu. En Framsóknarflokkurinn hefur sjálfur ákveðið að hverfa frá áformum um óverðtryggð lán í eigin lánastofnun, Íbúðalánasjóði sem undir hann heyrir og bjóða bara upp á verðtryggð húsnæðislán. Hvernig getur Framsóknarflokkurinn stigið fram (Forseti hringir.) eftir loforð um afnám verðtryggingar og sagt: Við bjóðum bara (Forseti hringir.) verðtryggð lán í Íbúðalánasjóði og erum hætt við óverðtryggð?