144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[15:56]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Hv. þm. Helgi Hjörvar var hér í ágætisræðu og með mikla talnaleikfimi. Frumvarpið sem við ræðum er, eins og hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar fór yfir í nefndaráliti, til að tryggja samræmi við framkvæmd frádráttarliða samkvæmt 8. gr. þessara laga um leiðréttinguna og tryggja lagastoð vegna frádráttarliða sem raktir eru þar, aðallega sértæka skuldaaðlögun og 110%-leið fyrrverandi ríkisstjórnar. Til áréttingar og til að koma inn á ræðu hv. þm. Helga Hjörvars er með leiðréttingunni verið að koma til móts við heimili með verðtryggð húsnæðislán þar sem fyrri ríkisstjórn skildi við og með aðgerðum sem margir hverjir héldu fram að væru jafnvel óframkvæmanlegar; beinar niðurfærslur á höfuðstól verðtryggðra lána og möguleiki á að nýta séreignarsparnað, sem ekki hefur verið minnst á, til að hjálpa heimilum með verðtryggð lán á beinan hátt og lækka þannig mánaðarlega greiðslubyrði.

Hv. þingmaður kom inn á að hver slík mánaðarleg greiðslubyrði gæti orðið, þ.e. til að létta á pyngju heimila. Ég held að við getum verið sammála um að miðað við meðalniðurfærslur geti þetta verið á bilinu 7–9 þúsund.