144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[16:00]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Við erum algjörlega sammála um að forsendubresturinn sem verið hefur til umræðu fólst í því að hagvöxtur, kaupmáttur, atvinnuleysi og verðbólga fór úr böndunum við efnahagshrunið, allt á sama tíma. Það hafði ekki gerst áður í þvílíkum mæli. Mikill samdráttur í launum ásamt aukinni verðbólgu og samdráttarskeiðið sem kom í kjölfarið reyndist íslenskum heimilum þungur baggi. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim aðgerðum sem ráðist var í á síðasta kjörtímabili, en við erum sammála um að það hefði þurft að gera betur og meira, það er það sem við stöndum frammi fyrir hér og núverandi ríkisstjórn hefur verið að gera á rúmlega ári, sem ég tel afar vel að verki staðið.

Hv. þingmaður talaði um fjárlagafrumvarpið sem verið hefur til umræðu hér og blandaði því við umræðu um matarskatt. Ég ætla að leyfa mér að rifja hér upp að heildaráhrif fjárlagafrumvarpsins fela í sér að ráðstöfunartekjur munu aukast, kaupmáttur mun aukast og eins vísitala neysluverðs, þetta mun hafa þau áhrif að hún fer niður. Það hefur áhrif á skuldirnar. Við hv. þingmaður hljótum að geta verið sammála um að heildaráhrifin eru jákvæð. Það er mikið framfaraskref að afnema almenn vörugjöld.

Ég spyr því hv. þingmann: Eru það ekki heildaráhrifin sem skipta máli? Er hann ekki sammála því að það sé mikið framfaraskref að afnema almennu vörugjöldin?