144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[16:05]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Það er freistandi í umræðu um þetta frumvarp að fara yfir sögu þessa máls alveg frá því að loforðaflaumurinn fór af stað undir lok síðasta kjörtímabils. Hann náði hámarki síðustu dagana fyrir kosningar 2013 og snerist þá um höfuðstólslækkun skulda, þ.e. að lækka skuldir einstaklinganna og heimilanna í landinu með því að ná í dauðrotaða hrægamma úti í skógi, eða jafnvel bara dauða, og kreista úr þeim síðustu aurana til að greiða inn á reikninga heimilanna, eins og það var kallað. Sjaldan hefur hugtakið heimili verið jafn illa brúkað og í þeim hildarleik sem átti sér stað fyrir kosningarnar 2013.

Hvað um það, ég ætla ekki að falla í þá freistni núna. Ég fór örlítið yfir þetta í ræðu minni við 1. umr. um þetta mál, rakti loforðasúpuna, fór í mjög grófum dráttum yfir yfirlýsingar þáverandi hv. þingmanns, formanns Framsóknarflokksins og núverandi forsætisráðherra, um það hversu einfalt það átti að vera og létt að leiðrétta skuldir fólks vegna húsnæðislána og hversu miklu betra lífið yrði fyrir okkur öll eftir á og upp í þann óskapnað sem það síðan snerist og sjá má í lögum 35/2014, um stóru millifærsluna úr ríkissjóði. Er nú verið að þétta í frekari göt með þessu frumvarpi sem er á dagskrá, þ.e. reyna að koma í veg fyrir að einhver gæti hugsanlega skotist undan sem hægt væri að ná í.

Tilgangurinn með því frumvarpi sem hér um ræðir er að skýra nánar efni 11. gr. laga nr. 35/2014 og tryggja samræmi í verklagi við frádrátt frá leiðréttingarfjárhæðinni. Á mannamáli þýðir það að reynt skuli að koma í veg fyrir ósamræmi í þessu og það sleppi enginn undan sem hugsanlega hefði getað einhvern tímann áður fengið úrræði til lækkunar skulda sinna sambærileg því sem í boði voru á síðasta kjörtímabili af hálfu stjórnvalda.

Það var vakin athygli á því í 1. umr. um þetta mál hversu óskýrt þetta frumvarp er, þ.e. hugtök í því sem mönnum fannst óskýr eins og hvað eru almenn skuldalækkunarúrræði. Mér finnst ekki skýrt í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar við hvað nákvæmlega er átt þarna. Enn síður finnst mér nefndarálitið vera skýrt. Þar segir, með leyfi forseta:

„Meginástæða þess að frumvarpið er lagt fram er að mögulega virðist hægt að halda því fram að úrræði sem einstaklingar hafa notið og eru sambærileg þeim úrræðum sem tilgreind eru í b- og c-lið 1. mgr. 8. gr. laganna falli ekki undir ákvæði greinarinnar …“

Síðar, með leyfi forseta:

„Ástæða þessa er að dæmi eru um að fjármálastofnanir hafi beitt úrræðum sem í eðli sínu falla undir ákvæði samkomulags um sértæka skuldaaðlögun …“

Enn síðar, með leyfi forseta, segir í þessu nefndaráliti:

„… og samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila, dags. 15. janúar 2011, en geta lagalega talist falla utan þeirra. Að óbreyttu kann að verða umdeilanlegt hvort þeir sem notið hafa slíkra úrræða“ o.s.frv.

Hér er hvergi talað skýrt. Þetta eru allt matskennd atriði, túlkunaratriði sem eru þá falin þeim hópi sem er að skipta þessum 80 milljörðum á milli fjármálastofnana, hvernig á að sópa upp skuldum og fyrri úrræðum sem fólk hefur fengið. Það virðist mögulega hægt að halda þessu fram, segir þarna, og það er talað um sambærileg úrræði. Það er líka matskennt hvað eru sambærileg úrræði.

Tekin eru dæmi um að fjármálastofnanir hafi beitt úrræðum sem í eðli sínu eru sambærileg við það sem áður hefur verið gert. Þetta er mjög varasamt að gera í máli sem þessu sem mun kosta miklar deilur í framtíðinni. Það verða höfðuð mál út af þessari millifærslu. Harðar deilur munu rísa upp í samfélaginu milli fólks, frá almenningi til stjórnvalda, til að leysa úr þeim deilumálum og ágreiningsmálum sem eiga eftir að koma þegar og ef eitthvað kemur út úr þessu máli á endanum.

Því ber að hafa lagatexta skýran og því ber meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar að tala skýrt þegar kemur að því að afgreiða þetta mál þannig að það sé hafið yfir allan vafa hvað átt er við með þeim orðum sem hér standa.

Ég hvet efnahags- og viðskiptanefnd til að endurskoða fyrir 3. umr. og atkvæðagreiðslu nefndarálit sitt með það að markmiði að skýra nákvæmlega hvað hún á við, ekki að um sambærilega hluti sé að ræða sem í eðli sínu kunni að geta talist eitthvað. Þetta er ekki góður texti. Þetta er ekki gott álit. Þetta skýrir ekki vafamálin sem upp komu í fyrri umræðunni og veikan og sambærilegan texta að mörgu leyti í frumvarpinu, enda er sumt af þessum texta reyndar tekið úr frumvarpinu sjálfu og skýringum með því.

Á bls. 2 segir til dæmis í athugasemdum við lagafrumvarpið að í einhverjum tilvikum kunni að mega halda einhverju fram. Hvers konar texti er þetta í lagafrumvarpi? „Í einhverjum tilvikum kann að mega halda því fram að …“

Í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins segir að telja megi að „hún geti stuðlað að færri ágreiningsmálum“, þ.e. að telja megi að verði þetta frumvarp samþykkt geti það stuðlað að færri ágreiningsmálum o.s.frv.

Þetta er ekki góður texti. Hann nær ekki utan um það sem hér á að gera að mínu mati og er alls ekki skýr í því eins og ég hef farið yfir.

Hvert er þá markmiðið í raun og veru? Til hvers er þetta frumvarp lagt fram? Af hverju erum við að ræða þetta hér og hvers vegna er lögð svona mikil áhersla á að samþykkja þetta leiðréttingarfrumvarp við leiðréttingarlögin svokölluðu, stóru millifærsluna?

Í lögum 35/2014, millifærslulögunum, segir í 1. gr., með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að kveða á um skipan og fyrirkomulag leiðréttingar á verðtryggingu fasteignaveðlána …“

Á einhverjum tímapunkti hafa menn ákveðið að hætta að tala um höfuðstólslækkun og niðurfellingu skulda. Hér er talað um að það eigi að leiðrétta verðtrygginguna og horfið frá höfuðstólslækkuninni sem er skiljanlegt þegar lögin eru lesin betur. Ég mun fara yfir það á eftir.

Í 2. gr. laganna segir, með leyfi forseta:

„Í samningi um uppgjör milli ríkissjóðs og aðila skv. 1. mgr. skal við það miðað að hvorki skapist hagnaður né tap hjá samningsaðila vegna greiðslu ríkissjóðs á leiðréttingarhluta láns …“

Það á sem sagt enginn að tapa á þessu og það á enginn að græða á þessu, hvorki ríki né fjármálastofnanir. Ég mun fara betur yfir þetta á eftir.

Í lagafrumvarpinu um millifærsluna er útskýrt hvernig á að greiða út 80 milljarðana að frádregnum kostnaði og vaxtakostnaði o.fl. sem þessir 80 milljarðar munu bera á tímabilinu. Hvað á að koma til frádráttar áður en farið er að greiða niður höfuðstól sem þó var markmið laganna í upphafi? Í aðdraganda lagasetningarinnar, í aðdraganda kosninganna, var talað um höfuðstólslækkun húsnæðislána. Það muna allir. Það er hægt að vitna í það og í ræðu minni við 1. umr. vitnaði ég í að talað hefði verið um höfuðstólslækkun húsnæðislána. Nú er löngu horfið frá því, enda er höfuðstóllinn langt fyrir aftan allt annað í þessari röð.

Í 8. gr. laganna er farið yfir frádráttarliði einstaklings, þ.e. hvað á að draga frá því sem einstaklingur fær hugsanlega út úr þessari millifærslu. Það er athyglisvert að renna aðeins yfir það. Þetta er nokkurs konar veðbókarvottorð, veðkröfur í millifærslu. Hérna er listað upp hverjir eiga rétt á því að fá af þessum 80 milljörðum og í hvaða röð.

Á 1. veðrétti segir:

„Frá þeirri fjárhæð sem ákvarðast“ — þ.e. því sem eftir er af þessum 80 milljörðum þegar búið er að greiða kostnaðinn — „skal draga samtölu hlutdeildar einstaklings í niðurfellingu vegna fasteignaveðlána sem hafa glatað veðtryggingu í kjölfar nauðungarsölu eða annarrar ráðstöfunar …“

Það á að ganga fyrst að einstaklingi sem hefur misst húsnæði sitt sem áður var veð í og það stóð ekki undir veðsetningunni. Það á að taka það fyrst og greiða bankanum það upp.

Önnur veðkrafa á 2. veðrétti er eins og segir í textanum, með leyfi forseta:

„Niðurfelling veðkrafna í kjölfar afmáningar fasteignaveðkrafna skv. 12. gr. laga nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.“

Þetta er 2. veðréttur.

Á 3. veðrétti:

„Niðurfelling fasteignaveðkrafna sem mælt er fyrir um í samningi um sértæka skuldaaðlögun …“

Hvað er sértæk skuldaaðlögun? Nauðasamningar sem fólk fór í gegnum á vegum umboðsmanns skuldara á sínum tíma til að geta greitt af lánum sínum til að reyna að forðast þrot. Það er 3. veðréttur í millifærslunum.

4. veðréttur:

„Lækkun skulda samkvæmt eða í tilefni af samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila …“

Það er kallað 110%-leiðin.

5. veðréttur:

„Niðurfelling fasteignaveðkrafna í kjölfar greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga. Gildir þetta þrátt fyrir ákvæði 33. gr. laga nr. 101/2010.“

6. veðréttur:

„Niðurfelling fasteignaveðkrafna samkvæmt lögum nr. 103/2010, um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota.“

Það var sérstaklega réttmætur þrýstingur á það að leysa málefni þeirra sem sátu uppi með tvær húseignir á síðasta kjörtímabili. Það var leyst úr því.

Þetta er 6. veðréttur og takið eftir að það er ekki enn komið að höfuðstól.

7. veðréttur:

„Sérstök vaxtaniðurgreiðsla“ sem gripið var til á síðasta kjörtímabili upp á 12 milljarða kr. Það er 7. veðréttur og það á að taka það til baka. Það á að hreinsa það upp.

8. veðréttur:

„Ákvarðaðar lánsveðsvaxtabætur“ sem voru teknar upp á síðasta kjörtímabili, reyndar ekki mjög há upphæð, nokkur hundruð milljónir ef ég man rétt. Það er 8. veðréttur í millifærsluna. Ég er ekki enn kominn að höfuðstól.

9. veðréttur. Um hann er getið í 11. gr. laganna og þar segir:

„Þá skal færa á leiðréttingarhluta lánsins skuld á jöfnunarreikningi ef umsækjandi hefur notið greiðslujöfnunar á grundvelli laga nr. 63/1985, sbr. lög nr. 107/2009.“

Það er jöfnunarreikningurinn, það sem er tekið til hliðar og geymt og var búið að samþykkja af fjármálastofnunum að hluta til að fella niður. Það var búið að samþykkja að afskrifa það. Nei, nú á að borga það upp í topp. Það er 9. veðréttur á millifærsluna. Það á að hreinsa það og borga upp í topp.

Það frumvarp sem við ræðum hér er svo 10. veðréttur, þ.e. allar aðrar aðgerðir sem fjármálastofnanir hafa hugsanlega gripið til til að hjálpa fólki í gegnum skuldafjallið sitt, til að létta fólki lífið, hugsanlegar aðgerðir, sambærilegar, aðgerðir sem eru í eðli sínu eins og allt það sem ég hef talið á undan. Það er 10. veðréttur í millifærslu.

Ætli sé þá loksins komið að höfuðstólslækkuninni? Á 11. veðrétti? Það er krafa nr. 11 og þá erum við komin að heimilunum í landinu, fasteignaskuldunum, að lækka þær.

Allt það sem ég hef talið hér upp er það sem fjármálastofnanirnar fá, bankarnir, lífeyrissjóðirnir og Íbúðalánasjóður. Það er verið að hreinsa upp allt annað og greiða þetta beint inn á útlánareikning fjármálastofnana á fyrstu tíu veðréttunum. Hverjir fá þessa peninga? Eru þeir lagðir inn á heimilisreikninginn? Nei. (Gripið fram í: Hvað verður eftir?) Þeir fara beint inn á útlánareikning fjármálastofnana. Það er allt skafið upp og greitt inn á þá reikninga áður en kemur að höfuðstólslækkuninni. Hvað verður þá eftir? er spurt. Já, hvað verður þá eftir af þessari upphæð þegar búið er að hreinsa upp allt annað sem á undan er?

Það er rangt sem kom fram hjá hv. þm. Willum Þór Þórssyni áðan, að ríkisstjórn hægri flokkanna hafi haldið áfram þar sem síðasta ríkisstjórn skildi við. Við skildum ekki við þetta svona. Það var aldrei ætlunin að gera þetta sem ríkisstjórnin er að gera hér, að millifæra úr ríkissjóði 80 milljarða kr. inn á fjármálastofnanir. Okkur datt það ekki einu sinni í hug. Hvers konar vitleysa er það? Enda þegja þeir nú þunnu hljóði sem voru á barkanum á þingmönnum og stjórnarliðum á síðasta kjörtímabili, t.d. lífeyrissjóðir. Þeir tóku ekki þátt í einu einasta máli sem við leituðum til þeirra með, hvort sem það voru framkvæmdir, afskriftir skulda eða sérstakar vaxtabætur, þeir bökkuðu undan því öllu.

Nú þegja þeir, nú eru þeir ánægðir. Hvers vegna? Vegna þess að þeir fá meira út úr þessu frumvarpi, út úr þessum lögum, þeir fá meira til baka en þeir leggja í púkkið. Það er niðurstaðan þegar upp er staðið. Þess vegna eru þeir býsna ánægðir með sinn hlut, þeir sem fá. Og hverjir fá? Fjármálastofnanir, lífeyrissjóðir, bankar og Íbúðalánasjóður, þeir sem fengu ekki úrræðin sem hér voru upp talin á síðasta kjörtímabili vegna þess að það fólk var ekki í vanda. Þeir fá nú út úr þessari aðgerð allri saman. Og það frumvarp sem við erum með hérna, þetta leiðréttingarfrumvarp á millifærslulögin, er vonandi einhvers konar lokahnykkur á þessa vitleysu þar sem verið er að hundelta fólk með restina. Það á að hundelta þá fáu sem úrræðin ná ekki yfir með einhverjum matskenndum lagaákvæðum, matskenndum texta um einhver sambærileg viðmið, einhverjar sambærilegar aðgerðir, aðgerðir sem í eðli sínu geta talist sambærilegar við eitthvað sem áður var gert. Það á að þurrka það upp líka.

Þannig á að hundelta fólk þannig að örugglega fái enginn neitt út úr því fyrr en bankarnir eru búnir að fá sitt, fyrr en þeir eru búnir að fá allt sitt greitt inn á reikning, öll vanskilin, alla dráttarvextina, allt hreinsað upp í tíu ítarlegum liðum, jafnvel fleirum því að það frumvarp sem hér um ræðir er það matskennt að margt getur heyrt undir það.

Látum það nú vera, lítum á þetta sem einn lið í upptalningunni. Það eru tíu veðréttir, tíu veðkröfur í millifærsluna áður en kemur að heimilunum í landinu eins og talað er um.

Ætli mörgum finnist þá ekki orðið rýrt í roðinu það sem eftir stendur og fólk reiknaði kannski með að fá inn á lánin sín áður? Það er hætt við því.

Ég hefði trúað þeim æfingum sem hér eru upp á annan stjórnarflokkinn en ekki hinn. Það hefði ég bara ekki gert. Það á að grípa til sérstakra aðgerða til að þurrka upp vanskil í bönkum úr ríkissjóði án þess að taka á skuldavanda heimila og fjölskyldna vegna fasteignaveðlána.

Það er ágætt að rifja annað upp. Ætli greiðslubyrði fasteignaveðlána af allri greiðslubyrði heimila sé ekki um það bil þriðjungur af greiðslubyrði heimila í landinu? Meðan veðin standa undir greiðslum, meðan forsendubresturinn svokallaði gengur til baka, er fólk hundelt með sérstökum leiðréttingarfrumvörpum til að koma í veg fyrir að nokkur einasti maður sleppi áður en kemur að fjármálafyrirtækjunum.

Þetta er algjörlega fordæmalaust, að mínu mati, í sögu þings og þjóðar. Það er eins og rík áhersla sé lögð á það að greiða fjármálastofnunum tugi milljarða króna úr ríkissjóði. Ég spyr mig í þessu máli eins og svo mörgum öðrum: Var þetta erindi hinnar nýju þingsveitar Framsóknarflokksins eftir kosningarnar árið 2013? Var það akkúrat þetta sem þau ætluðu að gera?