144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[16:25]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Björn Valur Gíslason fór ágætlega yfir það frumvarp sem við ræðum, frumvarp til laga um breytingu á lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, og þau nefndarálit sem mælt var fyrir. Hv. þingmaður kom inn á orðalag í nefndaráliti, hann kom inn á lagalega túlkun textans. Það er álit lögmanna að hér þyrfti að tryggja frekar þá lagastoð sem fram kemur í breytingu á 1. gr., þ.e. í 1. gr. þessa frumvarps sem er breyting við 8. gr. laga nr. 35/2014, og það fyrst og fremst til að tryggja að samræmi verði við framkvæmd þeirra frádráttarliða sem hv. þingmaður fór ágætlega yfir og eru taldir upp í 8. gr.

Minn skilningur er sá að það tryggi þá lagastoð vegna þeirra frádráttarliða sem þar eru raktir og það muni stuðla að færri ágreiningsmálum vegna frádráttarliða, alveg óháð því hvað okkur finnst um það og þeirri staðreynd að þeir séu til staðar. Þeir munu taka af allan vafa um það að jafnræðis sé gætt og þá til framtíðar hugsanlega lækka kostnað sem hlýst vegna málareksturs, bæði fyrir fjármálastofnanir og heimili.

Ég spyr hv. þingmann hvort við getum ekki verið sammála um þessa túlkun.