144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[16:29]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Val Gíslasyni fyrir svör hans. Ég virði túlkun hans á þessu. Við erum algjörlega sammála um að lagatexti eigi að vera skýr og taka af allan vafa um það mál sem fjallað er. Ég túlka þessa breytingu þannig, mér finnst hún tryggja þá lagastoð og það markmið sem lagt er upp með og við fórum yfir í fyrra andsvari.

Hv. þingmaður kom inn á að ég minntist á það í fyrra andsvari við hv. þm. Helga Hjörvar að núverandi ríkisstjórn hefði tekið við þar sem fyrri ríkisstjórn skildi við. Við höfum rætt margar af þeim aðgerðum sem komu til á því kjörtímabili. Ég geri alls ekki lítið úr þeim en kom inn á það að hér þyrfti að bæta um betur. Það kom reyndar fram fyrir síðustu kosningar hávær krafa um að stíga inn og bæta um betur, berja í brestina, sér í lagi hjá þeim sem voru með verðtryggð fasteignalán og lágu óbættir hjá garði og fyrri úrræði höfðu ekki náð til. Samkvæmt opinberum tölum er talið að fyrri úrræði hafi náð til um 10% heimila með verðtryggðar húsnæðisskuldir. Sú aðgerð sem verið er að fara í núna, bara leiðréttingin ein og sér, nær til 69 þúsund heimila. Ef við tökum séreignarsparnaðinn með nær þetta til um 100 þúsund heimila.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann geti ekki verið sammála um að þetta séu víðtækar aðgerðir.