144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[16:44]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hélt hér ræðu og kallaði eftir svörum við spurningum. Það er býsna ankannalegt að koma upp í andsvari og reyna að svara öllum þeim spurningum. Þær eru allar mjög réttmætar og við hv. þingmaður fórum vel yfir þetta í hv. efnahags- og viðskiptanefnd en margar spurninganna eru ekki mjög einfaldar.

Varðandi búseturéttarhafana þá deilum við sömu skoðun. Þessari aðgerð var beint að heimilum og æskilegt hefði verið að við hefðum opnað þar á lögaðila. Það þarf aðrar aðgerðir eða önnur úrræði þar. Hv. þingmaður kom réttilega inn á að þau nutu vaxtabóta og á margan hátt er um sams konar fyrirkomulag að ræða að öðru leyti en því að hér er um lögaðila að ræða.

Þá eru það leigjendur. Ég er talsmaður séreignarstefnu. Við eigum að gefa ungu fólki færi á að koma þaki yfir höfuðið og eignast húsnæði, en verðum við að hlusta á takt samfélagsins og þetta eiga að vera úrræði og það er verkefnahópur hér undir forustu hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra sem skilar tillögum sem eiga að hjálpa leigjendum. Vissulega urðu þeir, eins og fleiri, fyrir forsendubresti, öðru skal ekki haldið fram.

Hvað varðar greiðslujöfnuðinn og að það skuli gengið á hann fyrst þá eru þeir auðvitað í betri stöðu sem nutu greiðslujafnaðarins eftir heldur en áður þar sem því er skutlað aftur fyrir. Þeir munu njóta þess áfram.