144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[16:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir að koma í andsvör, sýna þó þá viðleitni að koma aðeins málefnalega inn í umræðuna. Mér finnst það athyglisverð yfirlýsing sem hann segir hér, að það hefði verið æskilegt ef hægt hefði verið að koma til móts við búseturéttarhafa, húsnæðissamvinnufélögin, en það hafi strandað á því að þar væri um lögaðila að ræða. Já, að formi til af því að þetta er félag, en þegar kemur að hinu efnislega í því þá er þar hver einstaklingur fyrir sig sem greiðir af því láni sem fylgdi hans búseturéttaríbúð og hefur fengið vaxtabætur, eins og áður er um getið, og þótti sjálfsagt að taka þá t.d. með í aðgerðum á fyrra kjörtímabili og meðhöndla þá algjörlega eins og þá sem voru í sínu eigin húsnæði.

Varðandi leigjendurna höfum við heyrt þetta áður. Við heyrðum fyrir hálfu ári síðan að það væri verkefnisstjórn að skoða málefni leigjenda, en það hefur síðan ekkert meira af því frést. Nú erum við hér að ræða það rétt áður en þetta á að fara að ganga í garð. Það hefur alltaf verið varhugavert að treysta því þegar svörin eru veitt á þessa vegu: Já, við ætlum að gera eitthvað fyrir þessa aðila síðar. Efndirnar hafa stundum látið á sér standa, enda er ég ekkert að segja að það sé allt saman einfalt og auðvelt.

Menn hafa verið að ræða um að taka upp samræmdar húsnæðisbætur í staðinn fyrir að sameina í raun og veru vaxtabætur og húsaleigubætur í eitt stuðningskerfi. Það hefur verið unnið að því lengi. Það hefur reynst torsótt að koma því á. Kannski sæi maður þá, ef það væri vel útfært, að hagur leigjenda væri virkilega réttur þannig að þessi húsnæðisform nytu nokkurs jafnræðis. Ég tel að það sé langur vegur frá því í dag því að auðvitað, ef ekki væru þessi endalausu áföll alltaf í húsnæðismálum hjá þessari blessaðri þjóð, er verið að aðstoða fólk í sjálfu sér við að mynda eign með vaxtabótakerfinu í séreignarstefnunni. En leigjandinn (Forseti hringir.) fær þá bara einhvern örlítinn tekjutengdan stuðning við húsaleiguna og myndar aldrei neina eign.