144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

Ábyrgðasjóður launa.

105. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Herra forseti. Hér erum við að breyta lögum um Ábyrgðasjóð launa eftir að dómur Evrópudómstólsins féll varðandi skilyrði sem sett eru. Við höfum verið með þau skilyrði að til þess að fá greitt úr Ábyrgðasjóðnum á grundvelli kröfu um bætur fyrir launamissi vegna slita á ráðningarsamningi hafi fólk þurft að vera virkt í atvinnuleit. Okkur er ekki heimilt að kveða á um slíkar takmarkanir og þetta ákvæði er þá fellt brott, en jafnframt er sett inn að ef viðkomandi er kominn í aðra vinnu fær hann eingöngu greiddar bætur sem nema þeim mun sem kunni að vera á launum í fyrra starfi og núverandi starfi ef launin í fyrra starfi voru hærri og fara ekki umfram það þak sem kveðið er á um í lögunum.

Undir nefndarálit þetta rita hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Björt Ólafsdóttir, Anna María Elíasdóttir, Ásmundur Friðriksson, Brynjar Níelsson, Guðbjartur Hannesson, Páll Jóhann Pálsson, Álfheiður Ingadóttir og Óli Björn Kárason. Það er algjör samstaða um þetta mál í nefndinni.