144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

heilbrigðisþjónusta.

76. mál
[17:00]
Horfa

Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Herra forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til breytinga á lögum um heilbrigðisþjónustu. Þetta er reglugerðarheimild sem verið er að setja inn, reglugerðarheimild varðandi gæða- og öryggisstaðla vegna líffæragjafar og blóðgjafar o.fl. Það er verið að setja í reglugerð reglur sem þegar eru til staðar varðandi þessa þætti.

Við fjölluðum um málið á síðasta þingi og afgreiddum úr nefndinni. Við afgreiðum það með sama hætti nú með breytingartillögu, því að við þrengjum reglugerðarheimildina af því að við töldum hana of víða. Hún á að ná, samkvæmt þeirri tilskipun sem við erum að lögleiða með þessu, til gæða- og öryggisviðmiða við veitingu heilbrigðisþjónustu varðandi brottnám líffæra og líffæraígræðslu, meðferð og varðveislu á frumum og vefjum og rekstur blóðbankaþjónustu. Við töldum ekki eðlilegt að hafa hana víðari en sem því næmi og leggjum því til breytingartillögu við 1. gr.

Full samstaða er um málið í nefndinni og allir níu nefndarmennirnir rita undir nefndarálit þetta með breytingartillögunni.