144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

sérhæfð þjónustumiðstöð á sviði heilbrigðis- og félagsþjónustu.

257. mál
[17:09]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um sérhæfða þjónustumiðstöð á sviði félags- og heilbrigðisþjónustu. Með frumvarpinu er ætlunin að sameina Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Heyrnar- og talmeinastöð og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, auk TMF Tölvumiðstöðvar, í nýja þjónustumiðstöð sem mun þjónusta þá hópa sem stofnanirnar hafa sinnt til þessa. Með sameiningu þessara þriggja stofnana á vegum velferðarráðuneytisins og TMF Tölvumiðstöðvar er stefnt að því að auka gæði og skilvirkni þjónustu og bæta aðgengi að henni.

Hin nýja miðstöð kemur til með að sinna sömu hópum og framangreindar stofnanir, en það eru einstaklingar með heyrnarskerðingar, heyrnarleysi, talmein, blindu, sjónskerðingu, daufblindu, þroskaraskanir, einhverfu, meðfæddar alvarlegar hreyfihamlanir og fágæta sjúkdóma. Þannig er frumvarpinu ætlað að bæta þjónustu við fatlað fólk sem hingað til hefur oft þurft að leita til fleiri en einnar stofnunar vegna fjölþættra fatlana.

Jafnframt er ætlunin að auka þá þjónustu sem hefur verið hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins þannig að hún nái einnig til fullorðinna, en til þessa hefur hún fyrst og fremst sinnt börnum undir 18 ára aldri.

Í frumvarpinu er lagt til að hin nýja stofnun muni sinna fólki á öllum aldri þegar fram í sækir en sú breyting verði í áföngum. Fram til 1. janúar 2017 mun þjónusta miðstöðvarinnar við einstaklinga með einhverfu, alvarlegar þroskahamlanir og meðfæddar alvarlegar hreyfihamlanir vera með óbreyttu sniði og ná aðeins til þeirra sem eru undir 18 ára. Frá þeim tíma til 1. janúar 2019 er markmiðið að þjónustan nái til þeirra sem eru 30 ára og yngri. Eftir þann tíma og til 1. janúar 2021 mun þjónustan ná til þeirra sem eru yngri en 50 ára og frá 1. janúar 2021 annast miðstöðin þjónustu við alla óháð aldri.

Auk þessa er lagt til að miðstöðinni verði falinn rekstur og umsýsla sérfræðiteymis sem starfar samkvæmt 14. gr. laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011, en því er ætlað að veita þjónustuveitendum ráðgjöf um aðferðir til að draga úr beitingu nauðungar í þjónustu við fatlað fólk.

Hlutverk miðstöðvarinnar verður að veita sérhæfða félagsleg- og heilbrigðisþjónustu á sviði ráðgjafar, greiningar, meðferðar, hæfingar og endurhæfingar. Jafnframt skal hún þjóna hlutverki þekkingarmiðstöðvar sem aflar og miðlar upplýsingum og þekkingu og stuðlar að nýsköpun og þróun tækni á starfssviði sínu. Þá skal hún veita einstaklingum með sjaldgæfa sjúkdóma og sjaldgæfar fatlanir sem undir sérsvið miðstöðvarinnar heyra sérhæfða aðstoð eftir því sem við á. Loks skal hún sinna rannsóknum og fræðastarfi, m.a. í samstarfi við háskólastofnanir og stofnanir ríkis og sveitarfélaga.

Frumvarpið byggir m.a. á skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2013 um stofnanir sem þjónusta einstaklinga með skerta færni. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Starfsmenn þessara stofnana búa yfir mikilli fagþekkingu og hjá þeim starfa 25–30 fagstéttir. Hluti þeirra sinnir sambærilegum störfum eða á sama fagsviði. Sameiginlegt húsnæði myndi auðvelda samskipti þeirra og stofnun öflugra þverfaglegra teyma til að sinna þörfum einstaklinga með skerta færni. Með hagræðingu í rekstri skapast einnig fjárhagslegt svigrúm til að efla faglega starfsemi stofnananna enn frekar.

Allar stofnanirnar nýta upplýsingatækni við þjónustu sína. Aukin samvinna myndi breikka þekkingargrunn starfsmanna og stuðla að enn öflugri þróun og samnýtingu á lausnum til hagsbóta fyrir notendur þjónustunnar. Stofnanirnar stunda einnig allar rannsóknir og kennslu, sumar á háskólastigi. Með nánari samvinnu skapast betri aðstæður til rannsókna- og þróunarstarfs sem veita mun betri innsýn í þarfir fatlaðra einstaklinga og stuðla þannig að skilvirkari og betri þjónustu.“

Fýsileikaathugun ráðuneytisins í samstarfi við stofnanirnar sem fyrirhugað er að sameina leiddi til þeirrar niðurstöðu að meiri ávinningur mundi nást með sameiningu stofnananna í eina stofnun frekar en sameiningu þeirra undir sama þaki og var það jafnframt í samræmi við ábendingar Ríkisendurskoðunar um að velferðarráðuneytið kannaði kosti þess og möguleika á því að sameina tvær eða fleiri stofnananna að fullu.

Virðulegi forseti. Með þessum faglega og fjárhagslega ávinningi sem verður af sameiningunni munum við geta bætt þjónustuna, aukið gæði hennar og skilvirkni til hagsbóta fyrir fólk með skerta færni, líkt og ég sagði hér í upphafi. Í mínum huga er það og hefur ætíð verið forsenda þess að ég legg til þessa sameiningu.

Við vinnslu frumvarpsins var haft víðtækt samráð við hagsmunaaðila og forstöðumenn viðkomandi stofnana. Fjölmargar athugasemdir bárust við fyrirliggjandi frumvarpsdrög sem leitast hefur verið við að taka tillit til við endanlegt frumvarp. Almennt virtist mikil ánægja vera með fyrirhugaða sameiningu.

Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum þessa frumvarps. Það er von mín að með þessum breytingum muni sérhæfð þjónusta við framangreinda hópa batna til muna, en mikilvægt er að hún sé veitt á breiðum þverfaglegum grunni og ég tel að sameining þessi mun ná því markmiði.

Gert er ráð fyrir að ný stofnun verði staðsett á höfuðborgarsvæðinu, en jafnframt verði rík áhersla lögð á að jafna sem mest aðgengi allra landsmanna að þjónustu hennar óháð búsetu.

Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hæstv. velferðarnefndar og svo til 2. umr.