144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

sérhæfð þjónustumiðstöð á sviði heilbrigðis- og félagsþjónustu.

257. mál
[17:22]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan að það er ekki ætlunin með þessum breytingum að skerða á nokkurn máta þá þjónustu sem fólk hefur fengið á öllum aldri með skerta færni, heldur sjáum við þetta sem tækifæri til þess að bæta enn frekar í og auka enn frekar fagmennsku hjá því frábæra fólki sem vinnur þarna og sinnir þessum mikilvægu verkefnum. Við viljum nýta þann ávinning sem við teljum að geti orðið við það að sameina þessar stofnanir til að bæta enn frekar þjónustuna.

Gerðar voru ákveðnar breytingar sem sneru að frumvarpinu. Ég vil taka sérstaklega fram að ég er mjög sátt við að inn í 4. gr. frumvarpsins komi, með leyfi forseta:

„Stofnunin skal jafnframt sinna meðferð og ráðgjöf til einstaklinga með framangreindar skerðingar“ — sem ég taldi hér upp — „og til fjölskyldna þeirra auk þeirra sem eru með sjaldgæfa sjúkdóma og falla undir starfssvið miðstöðvarinnar, m.a. með tilliti til meðferðar, þjálfunar og annars konar ráðgjafar og stuðnings.“

Miðstöðin mun þannig geta haldið betur utan um börn sem eru með sjaldgæfa sjúkdóma. Það er skilgreint sérstaklega í skilgreiningu hugtaka hvað við erum að tala um. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þingið og náttúrlega velferðarnefnd horfi til þess að við þurfum að efla þessa þjónustu til framtíðar. Við sjáum ekki fyrir okkur að þjónustuþegum eða fólki með skerta starfsgetu muni fækka á næstu árum heldur akkúrat öfugt. Eftir því sem þjóðin eldist verða fleiri með sjón- og heyrnarskerðingu. Með bættri heilbrigðisþjónustu hefur fólk með fötlun og börn með fötlun miklu betri lífslíkur. Við getum búið þeim mun betri lífskjör og þess vegna skiptir svo miklu máli að við reynum að efla (Forseti hringir.) þessa starfsemi eins og hægt er. Það er markmiðið með þessu frumvarpi.