144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

um fundarstjórn.

[17:32]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs til að spyrja hæstv. forseta hvort honum sé kunnugt um ferðir hæstv. heilbrigðisráðherra. Margoft hefur verið óskað eftir því að hæstv. ráðherra verði viðstaddur þessa umræðu. Það er algjörlega óásættanlegt að henni verði fram haldið, hvað þá að henni verði lokið, áður en hæstv. ráðherra kemur hingað í þingið og gerir okkur grein fyrir afstöðu sinni til frumvarpsins.

Það er ekki að ástæðulausu sem við erum að fara þess á leit. Það frumvarp sem hér er til umræðu stríðir gegn þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur samþykkt og hæstv. ráðherra sérstaklega gert grein fyrir á vefsíðu Stjórnarráðsins í byrjun árs, 24. janúar sl. Það er óásættanlegt að hann komi ekki til þingumræðunnar áður en málið fer til nefndar þannig að við getum fengið að kynnast afstöðu hans til málsins.