144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:14]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er freistandi að ræða Mjólkursamsöluna og umræður sem orðið hafa um einokunartilburði þess risa eftir þetta andsvar.

Ég geri mikinn greinarmun á mjólk og víni og ég tel að hv. þingmaður ætti að gera það líka. Það er algerlega nauðsynlegt að átta sig á því að það skiptir sköpum fyrir lýðheilsu þjóðarinnar hvernig sölu og takmörkunum á aðgengi að áfengi er fyrir komið. Það á ekki við um mjólk. Sumir eru vissulega með mjólkuróþol og jafnvel mjólkurofnæmi en þeir geta þá varað sig á því. Ég þekki ekki dæmi þess að mjólk valdi fíkn þó að þau dæmi kunni að finnast.

Hv. þingmaður nefndi Evrópulöndin og ég hef auðvitað skoðað þau nokkuð. 194 lönd eiga aðild að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og ég skal viðurkenna að ég fór ekki yfir öll stöðuskjölin. Ég er þó með stöðuskjöl fyrir framan mig frá Þýskalandi og Rússlandi. Það verður bara að segjast eins og er að Ísland og Norðurlöndin standa ágætlega vel miðað við þá mælikvarða sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin leggur á áfengisstefnu þessara þjóða og árangur þeirra. Það er alveg klárt að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir með því að áfengi sé selt í sérverslunum og að það sé ríkiseinkasala. Hún mælir með takmörkun í aldri og dreifingu og með því að áfengiskaupaverð sé hátt. Hún mælir enn fremur með hörðum viðurlögum við ölvunarakstri.

Þetta eru þær leiðbeiningar sem við eigum að fara eftir (Forseti hringir.) þegar við mótum áfengisstefnu okkar. Það hefur verið gert og nú er hæstv. heilbrigðisráðherra kominn í hús og getur kannski bráðum gert okkur grein fyrir því (Forseti hringir.) hvernig þessi áfengisstefna okkar er uppbyggð.