144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég nefni barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna af því að ég tel að ef það er eitthvað eitt umfram allt annað sem við alþingismenn ættum að taka mjög alvarlega í þessum efnum séu það möguleg slæm áhrif á börn og ungmenni af einhverjum vanhugsuðum lagabreytingum sem við kynnum að vera að velta fyrir okkur að ráðast í. Ef einhverjir eiga að njóta vafans í málum af þessu tagi umfram alla aðra eru það börn og ungmenni, finnst mér. Þess vegna nefni ég barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Þó að ekki hafi dregið úr heildardrykkju og hún þvert á móti heldur vaxið þá hefur náðst árangur, sérstaklega í grunnskólunum, við það að missa ekki áfengisdrykkjuupphafsaldurinn áfram niður eins og hann því miður fór um tíma. Stutta sagan er sú að eftir að bjórinn kom varð neikvæð þróun í nokkur ár og við sáum aldurinn lækka í könnunum þegar spurt var: Hvenær neyttir þú fyrst áfengis og hvenær varstu farinn að gera það einu sinni í mánuði eða oftar o.s.frv.?

Síðan tókst með miklu átaki að stöðva þá þróun og það hefur náðst jákvæður árangur núna. En ég tel að það eigi ekki að setja í samhengi við þá breytingu sem hefur orðið á starfsemi ÁTVR og tal um aukið aðgengi á síðustu árum er að hluta til villandi vegna þess að þá eru menn að nota það sem rök fyrir stórauknu aðgengi að afgreiðslustöðum hefur fjölgað, og það hefur þeim vissulega, en það hefur fyrst og fremst verið í minni byggðarlögum á landsbyggðinni þar sem opnaðar hafa verið útsölur, sérstakar útsölur á vegum ÁTVR, yfirleitt að óskum heimamanna, með mjög takmarkaðan afgreiðslutíma o.s.frv., þær eru kannski opnar í einn til tvo tíma á dag. Þetta er fyrst og fremst til að mæta óskum íbúanna þar um að þeir fái þessa þjónustu á jafnræðisgrunni við aðra og þurfi ekki að borga flutningskostnað á vörunni úr fjarlægum byggðum eða (Forseti hringir.) með póstsendingum. Aðgengið hefur því breyst mun minna að þessu leyti en ætla mætti, t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu.