144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:53]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kem hér eins og tveir síðustu ræðumenn í mína síðari ræðu og ég get fullvissað hæstv. heilbrigðisráðherra um að nærveru hans var óskað til að eiga við hann samtal en ekki að hann hlustaði eingöngu í hliðarsal. Mér þykir það miður þar sem hér hafa komið fram margar ágætisspurningar um þetta grundvallarmál og þá stefnu ríkisstjórnarinnar sem sett hefur verið og vitnað var í áðan. Um það snýst málið. Ég skil vel að hæstv. ráðherra sé í einhverjum vandræðum með þetta þar sem samflokksmaður hans og fleiri leggja frumvarpið fram og það harmónerar hreint ekki við þá stefnu sem hér var vitnað til rétt áðan. Það þýðir að hann þarf að taka afstöðu til málsins eins og við hin. Því finnst mér miður ef hann ætlar að sitja þessa umræðu af sér án þess að gera okkur grein fyrir því hvað honum finnst um málið og hvort hann sé sammála þeim spurningum sem hér hafa komið fram, hvort hann styðji í raun frumvarpið eða hvort hann styðji þau samtök og alla þá aðila sem væntanlega hafa sent honum póst eins og okkur hinum þingmönnunum.

Þetta er stórt mál og þess vegna vildum við heyra afstöðu hans til þess. En það er einhvern veginn með þetta eins og flest annað sem ríkisstjórnin leggur fram að það þarf mótvægisaðgerðir. Það þarf orðið mótvægisaðgerðir við flestu sem ríkisstjórnin leggur til, gott ef ekki bóluefni. Það er mjög sérstakt að hér sé verið að leggja til nokkuð sem er algerlega andstætt öllu því sem heilbrigðisstefnan lýtur að. Ég skil eiginlega ekki þennan forgangsmáta eins og ég hef áður sagt. Ég hef setið alla þessa umræðu og ég hlustaði á 1. flutningsmann málsins og mér finnst ekkert hafa komið fram sem styður við frumvarpið og er sterkara en þau mótvægisrök sem hér hafa verið lögð til. Frummælandi hefur komið í andsvör og mér finnst hann ekki hafa getað dregið fram með sannfærandi hætti að þetta sé skynsamlegri leið en sú sem farin er í dag. Það eru engar rannsóknir sem hann getur vitnað til sem standast þær sem segja að fyrirkomulagið eins og verið hefur sé með því besta.

Ég trúi því ekki þegar á reynir að hann eins og fleiri í ríkisstjórninni — hér hafa nú nokkrir framsóknarmenn tjáð sig og eru ekki sáttir — sæki stuðning einhvers staðar annars staðar frá en innan ríkisstjórnarflokkanna. Það er ekki hægt að gera lítið úr því sem kemur fram í aðgerðaáætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Það er auðvitað eitt af því sem við erum að inna hæstv. heilbrigðisráðherra eftir, hvort hann telji að það beri að fara eftir þeim rannsóknum og hvort skynsamlegra sé að halda núverandi fyrirkomulagi fremur en að fara þá leið sem lögð er til í frumvarpinu.

Það þarf ekki að rekja mikið nánar niðurstöður þeirra rannsókna sem vitnað hefur verið til. Mér finnst mikilvægt að á það sé hlustað. Það eru ekki bara einhverjir sem hafa gert þær rannsóknir sem hér hefur verið vitnað til heldur viðurkenndar alþjóðlegar stofnanir. Á það ber að hlusta umfram viðskiptahagsmuni sem hér hafa ítrekað verið ræddir í umræðunni af hálfu flutningsmanna. Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann sé sammála tillögu Norðurlandaráðs, þeim liðum sem þar koma fram og hvort það takist að sneiða hjá því sem við höfum rætt hér að í búðum víða úti á landi er ungt afgreiðslufólk. Ég vil líka spyrja hvort hann sé sammála því að áfengisneysla sé meðal sterkustu áhættuþátta lýðheilsu eins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir.

Þetta eru auðvitað grundvallarspurningar fyrir utan svo margar aðrar og ég punktaði margt niður hjá mér þegar frummælandi talaði þannig að ég á svo sem eitthvað eftir fyrir 2. umr. frumvarpsins.