144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[19:08]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta snýst um það að ríkið eigi að selja áfengi vegna þess að það hefur borið þann árangur, ásamt öðru forvarnastarfi, að staðan er eins og hún er í dag. ÁTVR hefur metið fjarlægðir á milli staða þar sem opnaðar hafa verið áfengisverslanir með skertan opnunartíma en komið er til móts við þörfina fyrir þjónustu.

Ég kem úr mjög litlu samfélagi; ég bý í miðjunni, ef við getum sagt sem svo, er með brennivínsbúðir beggja megin við mig í 15 kílómetra radíus. Það hamlar mér ekkert sérstaklega en það hamlar örugglega yngra fólki, það þarf að hafa fyrir því að kaupa áfengi. Það er ein matvöruverslun þar sem ég bý, það er ein á Dalvík og það er ein á Siglufirði. Þessar verslanir eru að stórum hluta mannaðar ungu fólki. Það er barátta við tóbakssöluna sem er nú undir borðinu og bak við og þrælmerkt og ég veit ekki hvað. Við erum enn að glíma við það, við höfum ekki enn náð yfir það. Ég hef enga ástæðu til að ætla að það verði eitthvað öðruvísi með áfengið. Þetta er meðal annars það sem við stöndum frammi fyrir fyrir utan prinsippið í málinu, sem hefur verið rakið hér, að það er talin besta forvörnin að hafa þetta fyrirkomulag. Það finnst mér skipta höfuðmáli í þessu.