144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[20:11]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við búum við fyrirkomulag þar sem við leyfum áfengi og sölu á áfengi. Það kann að virðast mótsagnakennt en er það þó ekki. Við viljum að landsmenn allir búi við, eða ég vil það alla vega, jafnræði í þessum efnum, að það sé hvar sem er á landinu aðgengi að áfengi. Á hinn bóginn viljum við mörg hver ekki virkja markaðsöflin til hins ýtrasta. Hv. þingmaður sagði að við treystum ekki einkaframtakinu. Kannski treystum við því of mikið, teljum að það verði duglegra að koma vöru sinni á framfæri. Út á þetta gengur síðan þessi umræða og það fyrirkomulag sem við búum við, að hafa aðgengi en á hóflegum nótum.

Það er alveg rétt að söludreifingarmátinn var annar fyrir einhverjum áratugum og menn hafa verið óþreytandi að (Forseti hringir.) hæða og spotta þá sem voru á móti bjórnum á sínum tíma, (Forseti hringir.) sem vöruðu við því að áfengisneyslan myndi aukast, en hún gerði það. (Gripið fram í.)— Nei, þetta (Forseti hringir.) er rangt hjá hv. þingmanni, (Forseti hringir.) þetta er bara rangt, hún gerði það ekki. (Gripið fram í: Það er rétt.) Nei. (Gripið fram í: Við töluðum …)