144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[20:13]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði að þetta snerist svolítið um jafnræði allra, jafnt aðgengi að áfengi um allt land. Ef við förum í kaupstað úti á landi sem er ekki mjög stór þá erum við sennilega í göngufæri við áfengisverslun. Af hverju má ég ekki vera í göngufæri á höfuðborgarsvæðinu? Af hverju þarf ég að keyra átta kílómetra og ef ég ætti ekki bíl að fara í strætó til þess að kaupa áfengi? (Gripið fram í: Oj bara.)— Já, oj bara, að fara í strætó til þess að kaupa eina áfengisflösku af því að ég ætla að bjóða einhverjum í mat. Finnst mönnum þetta ekki fráleitt? (ÖJ: Þú ert í göngufæri við Kringluna, veit ég.) [Hlátur í þingsal.] — Já, en það er ekki þar með sagt að ég búi alltaf þar, ég get búið vestur í bæ eða einhvers staðar. Þá þarf ég að fara í strætó fram og til baka og er kannski einn og hálfan tíma að kaupa þessa einu flösku. Ég sé ekkert jafnræði í þessu. (Forseti hringir.) Mér finnst þetta raunverulega fráleitt. (Gripið fram í.)