144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[20:16]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér kom fram í ræðu hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni hvað skiptir raunverulega máli. Einkasala, orðið einkasala, og ágóði. Það eru slæmu tíðindin. Hv. þingmaður réð auðvitað ekkert við þetta því að þetta kom beint frá hjartanu. Hvað varðar okkur um það? Okkur varðar um samkeppnina, neytandann varðar um samkeppnina, við erum öll sammála um að hún leiðir til besta verðs. Sömu þingmenn og eru algjörlega brjálaðir yfir einkasölu Mjólkursamsölunnar, einokun Mjólkursamsölunnar, eru mjög uppteknir af einokun á áfengi.

Ég verð að segja og segi það einu sinni enn að ég get ekki skilið það. Ég er ósammála því. Ég get ekki skilið að það sé hið stóra lýðheilsumál þessarar þjóðar hvort ég þurfi að ganga þúsund metra eða 500 metra eða fimm kílómetra til að nálgast vínið mitt, að það ráði úrslitum. Ég get ekki skilið það. En ég get auðvitað skilið áhyggjur manna almennt og þeirra sem eru í heilbrigðisgeiranum af neyslu, en það er ekkert sem styður þetta.

Jú, satt, ég gerði lítið úr rannsóknum, en úr því að menn eru alltaf að miða við rannsóknir og hvað þær sýna og þeir handvelja þær, þá handvaldi ég eina rannsókn sem sýndi eitthvað allt annað. Ég vísaði líka í rannsókn sem var framin hér um það hvernig áfengisneysla ungs fólks hefur þróast þegar fjölgun hefur orðið á áfengisútsölum. Þetta er svona. En mér finnst „statistík“ um það hvernig drykkja unglinga er á Íslandi miklu betri heimild en einhverjar ótilgreindar rannsóknir úti í heimi, Finnlandi eða einhvers staðar annars staðar. Ég hef engar forsendur til þess að meta þær.