144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[20:26]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég um mig frá mér til mín. Ég tel ekki rétt að byggja afstöðu til stórmála á þeirri forsendu.

Hv. þingmaður hefur lagt á það mikla áherslu að áfengi sé venjuleg vara. Þetta snúist um þjónustu, að það sé stutt út í búð og menn þyrftu þá ekki út í vínbúð, menn þyrftu ekki að nota strætó, hann nefndi nú ekki hjól, að þetta snúist um samkeppni og nútímalega viðskiptahætti.

Ef svo er, hv. þingmaður, er það þá ekki þannig að algert frelsi eigi að ríkja í þessu, svo ég snúi málinu upp á hv. þingmann eins og hann hefur spurt okkur hér? Hvers vegna er það þá að í þessu frumvarpi er verið að draga upp takmarkanir, m.a. að þeir sem eru yngri en 18 ára megi ekki selja vín? Er það ekki bara ástæðulaust? Og er þetta ekki þannig, hv. þingmaður, að ef áfengi væri eins og hver önnur venjuleg verslunarvara væri ósköp eðlilegt að veita afslátt í magnsölu til manna sem færu sjaldan með strætó, eða hafa útsölu (Forseti hringir.) fyrir verslunarmannahelgina eða fyrir skólaböllin? Er það ekki það sem hv. þingmaður er að vonast eftir?