144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[20:35]
Horfa

Oddgeir Ágúst Ottesen (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Þórunn Egilsdóttir benti á að áfengi er vímuefni. Það er alveg rétt. Það er ekkert í þessu frumvarpi sem breytir því. Íslendingar geta keypt áfengi í verslunum núna, það er bara farið fram á það að einkaaðilar geti selt áfengi.

Þetta virðist snúast um að fólk treysti ekki einkaaðilum því að ef aðgengi væri vandamál þá hefðu menn fyrir löngu gert athugasemdir við aukið aðgengi að áfengi með auknum fjölda vínbúða og lengri opnunartíma. Málið virðist fyrst og fremst snúast um að einkaaðilar megi ekki selja áfengi; það virðist vera kjarninn. Það sama kemur upp aftur og aftur í þessari umræðu, þ.e. aukið aðgengi, og það tengist fyrst og fremst einkaaðilum frekar en fjölda verslunarstaða eða opnunartíma.