144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[20:48]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta mál er tvíþætt, það snýst í raun um tvö atriði ef maður hefur fylgst með umræðunni, annars vegar áfengisneyslu ósjálfráða ungmenna og hins vegar áfengisneyslu sjálfráða fullorðins fólks.

Ef við tölum um neyslu á þessari vöru, þessu dópi, á því vímuefni sem áfengi er, þá eigum við ekki aðeins að horfa til aðgengishlutans, sem er einn af þeim þáttum sem við þurfum að horfa til, við verðum líka að horfa til kaupgetuþáttarins og löngunar í vöruna, vegna þess að allir þessir þrír þættir hafa áhrif á eftirspurnina, þeir hafa áhrif á neyslu fólks á áfengi.

Bent hefur verið á réttilega að með því að hætta að hafa ríkissölu á áfengi og leyfa einkaaðilum að selja það muni sölustöðum fjölga. Jafnframt mun sölutíminn lengjast á mörgum stöðum vegna þess að í frumvarpinu er talað um opnunartíma til kl. 8 á kvöldin. Opnunartíminn er til kl. 6 á laugardögum en almennt er lokað á sunnudögum í Reykjavík. Það er þó miklu verra á sumum stöðum úti á landi, ég hef meira að segja séð að sums staðar fá menn einn tíma að vetrarlagi og tvo tíma á sumrin, það er svo gott á sumrin, þá fá þeir tvo tíma til að versla sér áfengi, gott ef ekki á föstudegi og svo ekkert á laugardegi eða sunnudegi. Þetta er að finna á vefsíðu Vínbúðarinnar fyrir þá sem vilja skoða þetta. Í sumum plássum er þetta svona.

Jú, aðgengi mun klárlega aukast víðast hvar, bæði varðandi tíma og sölustaði, það mun gera það. Þá er það spurningin: Mun þetta aukna aðgengi hafa þau áhrif að ósjálfráða ungmenni muni auka neyslu sína? Þá verðum við að horfa til þess veruleika sem er á Íslandi. Frá 1990 hefur vínbúðum fjölgað úr 20 upp í 47 árið 2007, fjöldi verslana hefur meira en tvöfaldast á þessu tímabili. Vínveitingaleyfin hafa því sjöfaldast, 700% aukning þar, sölutími hefur aukist verulega þannig að aðgengið á þessu tímabili hefur aukist talsvert, það hefur meira en tvöfaldast og rúmlega það. En á sama tímabili, 1990–2007, hefur unglingadrykkja farið úr 56% niður í 31%. Á sama tíma og aðgengið hefur meira en tvöfaldast og rúmlega það hefur unglingadrykkjan næstum því helmingast. Sama hvaða skýrslu frá útlöndum menn ætla að vísa í þá er íslenski raunveruleikinn sá, og maður verður alltaf að taka tillit til raunveruleikans hér, að á meðan aðgengið hefur meira en tvöfaldast þá hefur unglingadrykkjan helmingast. Það er þátturinn varðandi ósjálfráða ungmennin.

Þá skulum við skoða hina þættina. Við verðum líka að horfa til þess að þó að aðgengið hafi aukist svona er það alltaf gert fyrir þá sem eru orðnir sjálfráða og rúmlega það, orðnir 20 ára gamlir og geta keypt sér áfengi þannig að aðgengi hefur ekki aukist jafn mikið hjá ungu fólki, klárlega ekki, og hjá fullorðnu fólki.

Hvað hefur þá minnkað unglingadrykkjuna svo mikið? Ef við ætlum ekki að blása á félagsvísindin, sem menn gera heldur ekki hérna — menn tala um forvarnir en reyna aftur á móti að tala niður áhrifamátt þeirra á unglingadrykkju, en forvarnir hafa áhrif á löngun fólks. Það er einn af þeim þrem þáttum sem hefur áhrif á neysluna, á eftirspurn. Forvarnir hafa klárlega áhrif á löngun fólks í áfengi, þær draga úr henni. Það er þess vegna sem við beitum forvörnum og það kemur líka fram í skýrslu um heildarendurskoðun áfengislöggjafarinnar, skýrslu starfshóps á vegum fjármálaráðherra, sem gefin var út 2010. Varðandi forvarnirnar segir, með leyfi forseta:

„Á undanförnum árum hefur forvarnarstarf í grunnskólum verið eflt mikið og það hefur skilað töluverðum árangri enda sýna kannanir að áfengisneysla meðal grunnskólanema hafi minnkað verulega frá árinu 1995. Á þetta við bæði um þá sem hafa drukkið áfengi og þá sem hafa orðið drukknir. Er þetta að líkindum vegna samstillts átaks foreldra, starfsfólks skóla og fjölmargra aðila sem sinna forvarnarstarfi.“

Þetta er tilvitnun í skýrslu, European School Survey Project on Alcohol and Other Drugs, frá 2007 þannig að forvarnastarfið er klárlega mjög mikilvægur þáttur og það er skrýtið að menn í þessari umræðu vilji blása á það og segja að það sé ekki svo mikilvægt, það sé einhver ný skýrsla um það frá Norðurlöndunum. Það fær mig til að hugsa: Hvers vegna er verið að tala niður forvarnir þegar við vitum að forvarnastarf er gríðarlega mikilvægt? Það er aðallega í grunnskólum sem starfið gengur svona vel. Drykkja fer strax að aukast þegar krakkar koma í framhaldsskólana. En þá þurfum við einmitt að bæta á forvarnastarf þar. Í frumvarpinu er áfengisgjald enn þá til staðar sem hefur hækkandi áhrif á verð, sem hefur síðan áhrif á þriðja atriðið sem hefur áhrif á neyslu, þ.e. á kaupgetuna. Það er ekkert farið að snerta við þessu nema að hluti af áfengisgjaldinu er færður úr 1% í 5%, sem fer til forvarnastarfs. Það minnkar aftur löngun fólks til að neyta áfengis.

Annað bann sem verður áfram til staðar og þetta frumvarp hreyfir ekkert við er bann við auglýsingum á áfengi. Hvers vegna skiptir það bann máli? Það skiptir máli að því leytinu til að það hefur áhrif á löngun fólks, auglýsingar hafa áhrif á löngun fólks, eitt af þessum þrem atriðum. Áfengisauglýsingar eru bannaðar af því að menn líta á áfengi sem sérstaka vöru, sem dóp, sem vímuefni og vilja ekki leyfa auglýsingar á slíku. Það verður ekkert hreyft við því banni en þarna komum við að því að allir í umræðunni eru sammála um að löngunarþátturinn og áhrifin á hann skipti máli þótt menn reyni að blása á forvarnahliðina núna.

Annað sem lítið hefur verið til umræðu hér og við þurfum virkilega að taka á er heildstæð nálgun við minnkandi eftirspurn þegar kemur að misnotkun á vímuefnum, á áfengi og öðrum vímuefnum. Við píratar lögðum fram þingsályktunartillögu og skipaður var starfshópur um heildstæða samþætta stefnu til að taka á öllum þáttum minni eftirspurnar, á forvörnum, skaðaminnkun, meðferðarúrræðum og því að hjálpa fólki við að koma aftur undir sig fótunum eftir að það er laust við fíknina, að koma sér aftur inn í lífið þannig að það verði ekki fíkninni aftur að bráð. Það þarf að taka heildstætt á þessu og menn eru sammála um það almennt. Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu okkar pírata og er starfshópur er að vinna að málinu. Meðferðarúrræði er nokkuð sem við þurfum að fókusera vel á og við þurfum að efla forvarnirnar. Það tvennt þurfum við að gera.

Unglingadrykkjan mun minnka enn þá frekar ef við horfum til þess að forvarnaþátturinn og meðferðarúrræðin, sem eru til fyrirmyndar á Íslandi þó að sjálfsögðu megi bæta þar úr, hefur haft áhrif á eftirspurnina og unglingadrykkjan hefur, eins og kemur skýrt fram í íslenskum raunveruleika, nærri helmingast á tímabilinu 1995–2007.

Hvað gerum við varðandi kaupmáttarhliðina? Það snertir ekkert við því, eins og ég nefndi áðan. Áfengisgjaldið er áfram hið sama. Menn sem formæla þessu frumvarpi hafa jafnvel sagt að áfengisverð geti hækkað og að það væri þá hið versta mál, þó að þessir sömu aðilar séu hlynntir áfengisgjaldinu, vilji hækka verðið og minnka kaupgetu fólks varðandi áfengi. Þarna er komin hringrakavitleysa ef menn kasta þessu bara fram til að fá einhvern ákveðinn hóp til að gagnrýna frumvarpið en vilja svo ekki sjá áfengisverðhækkunina.

Varðandi ósjálfráða ungmenni þá vilja menn vernda þau og heilsu þeirra. Íslenskur raunveruleiki er sá að lýðheilsan hefur farið niður samhliða því að aukning á aðgengi hefur verið gríðarlega mikil. En aðgengisþátturinn er ekki það sem leikur lykilhlutverk og þetta frumvarp tekur á forvarnaþættinum, það eykur hann en ég mundi vilja auka hann meira. Ég mundi líka vilja sjá að tekið væri vel undir tillögu SÁÁ, tillögu sem þeir kölluðu Betra líf. Í blaði SÁÁ frá 4. október 2012 segir, með leyfi forseta:

„Frá stofnun SÁÁ hefur náðst frábær árangur í meðhöndlun áfengis- og vímuefnasýki á Íslandi. Í dag eru í samfélaginu um 10 til 12 þúsund alkóhólistar í bata. Það er einstakur árangur. Það er líka einstakt að af um 30 þúsund alkóhólistum á Íslandi hafa 22 þúsund leitað sér aðstoðar á Vogi. Það sýnir að samfélagið í heild þekkir þennan árangur; fólk í sama vanda leitar sömu lausnar.“

Ef ég man rétt þá hafa 50% þeirra sem leitað hafa sér aðstoðar hjá SÁÁ ekki fallið innan tveggja ára, það er góður árangur. SÁÁ er gríðarlega öflug og mikilvæg stofnun í samfélagi okkar sem við eigum að efla, við eigum að hjálpa þeim sem ekki geta fótað sig, geta ekki neytt áfengis eða annarra vímuefna í hófi, við eigum að aðstoða það fólk. Í blaði SÁÁ segir, með leyfi forseta:

„Þess vegna vill SÁÁ, samtök áfengis- og vímuefnasjúklinga og aðstandenda þeirra, hvetja fólk til að leggja fram frumvarp um sérstakt 10 prósent áfengisgjald sem renni til þolenda áfengis- og vímuefnavandans.“

Þeir benda á réttilega á að bandarískar rannsóknir hafi leitt í ljós að 20% af fólkinu drekki 88% af áfenginu.

Ég segi þetta aftur, með leyfi forseta:

„Bandarískar rannsóknir hafa leitt í ljós að 20 prósent af fólkinu drekka 88 prósent af áfenginu. Áfengismarkaðurinn er því fyrst og fremst knúinn áfram af sjúklegri ofneyslu fólks sem skaðar heilsu sína, félagslega stöðu og lífsgæði sinna nánustu með drykkju. Sömu rannsóknir sýna að 2,5 prósent fólksins, okkar allra veikasta fólk, drekka 26 prósent af heildarmagninu.“

Ég segi þetta aftur:

„Sömu rannsóknir sýna að 2,5 prósent fólksins, okkar allra veikasta fólk, drekka 26 prósent af heildarmagninu.“

Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Ríkissjóður leggur áfengisgjald á áfengi — 11.200 milljónir á þessu ári. Þetta þýðir að allra veikasta fólkið á Íslandi, um 6.250 manns, borgar í ár 2.900 milljónir í áfengisgjald. Þetta er skattur á sjúklega neyslu; fé sem tekið er af veikasta fólkinu og frá fátækustu fjölskyldunum. Þegar þessir sjúklingar og fjölskyldur þeirra þurfa síðan sárlega á sérstökum úrræðum að halda til að öðlast betra líf segjast stjórnvöld hins vegar enga fjármuni hafa til ráðstöfunar.“

Það er alveg klárt að SÁÁ sinnir ofboðslega mikilvægu og árangursríku starfi, en þegar fólk kemur úr meðferð eru nánast engin úrræði fyrir það og bara hendingum háð hvort einhver góðgerðarsamtök eru til staðar til að hjálpa því að koma undir sig fótunum aftur. Það þarf að laga með heildstæðum úrræðum þegar kemur að því að minnka eftirspurn þeirra sem eru í sjúklegri neyslu eftir vímuefnum. Við eigum að fókusera á það, þar eigum við að setja fjármuni. Það er forræðishyggja að banna sjálfráða einstaklingum að neyta ákveðinnar vöru, sjálfráða einstaklingum sem kunna að stilla neyslu sinni í hóf, þó að heildarneysla aukist. Það sem við eigum að gera er að passa upp á að unglingadrykkja aukist ekki. Við getum gert það og fordæmi á Íslandi sýna að við gerum það. Aðgengishlutinn er ekki sá þáttur sem hefur áhrif á það. Síðan eigum við að verja meira fé í forvarnir, við eigum að verja meira fé í meðferðarúrræði, við eigum að setja fé frá hinu opinbera í það að hjálpa fólki að koma undir sig fótunum þannig að það geti bjargað sér. Við eigum að aðstoða fjölskyldur þessa fólks. Þar eigum við að setja forganginn. Það mun hafa lítil sem engin áhrif á þá sem hafa sjúklega þörf í þessa vöru þó að aðgengið aukist eitthvað við þetta frumvarp.