144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[21:05]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það að ríkið sé að selja vöruna og einkaaðilum sé bannað það þá finnst mér ekki rétt að einkaaðilum sé bannað að selja áfengi. Þeim er það heldur ekki að öllu leyti. Við erum ekki með ríkisrekna bari um allt, bara af eðlilegri ástæðu, við viljum ekki hafa ríkið í þeim bisness. Brennur það eitthvað sérstaklega á mér? Nei, það brennur ekkert sérstaklega á mér. En mér finnst almennt að ríkið eigi ekki að vera í því að reka verslanir. Ef þetta væri gefið frjálst en ríkisverslunin ekki lögð niður væri hún í samkeppni við einkaaðila, sem ég er alfarið á móti.

Neysla unglinga hefur helmingast eða næstum því á sama tíma og aðgengið meira en tvöfaldaðist. Aftur á móti er réttilega nefnt, og gott að benda mér á það, að heildarneyslan hefur aukist, eins og komið hefur fram í umræðunni. Enginn mælir því í mót. Á sama tíma hefur vínmenningin batnað til muna. Hv. þingmaður er eflaust sammála því ef hann lítur til baka. Neyslan hefur dreifst á vikuna, hún hefur færst úr sterku áfengi í bjórinn, það kemur skýrt fram og enginn mælir gegn því.

Þá verða menn bara að spyrja sjálfa sig hvort betra sé að neyta brennivíns eða bjórs, hvort betra sé að dreifa neyslunni yfir fleiri daga eða drekka í stórum skömmtum. Ég held að hún sé betri, sú vínmenning sem við búum við í dag.

SÁÁ er hlynnt því að framboð allra vímuefna, áfengis og annarra, sé takmarkað. Þetta frumvarp mun auka aðgengið, eins og ég nefni, en snertir ekki á öðrum þáttum sem hafa áhrif á neysluna, (Forseti hringir.) sem er kaupmátturinn út af því að áfengisgjaldið helst óbreytt. (Forseti hringir.) En hluti af því fer í forvarnir sem minnkar löngunina og það dregur úr neyslunni.