144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[21:10]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Aukin neysla leiðir ekki nauðsynlega til aukinna samfélagslegra vandamála. Aukin neysla hefur klárlega átt sér stað en vínmenningin hefur batnað gríðarlega. Þegar fólk hellir í sig og verður mjög ölvað — „binge drinking“, eins og það er kallað á ensku — eða þegar fólk dreifir drykkjunni yfir lengra tímabil, sem hefur gerst, (Gripið fram í.) og færir sig úr sterku áfengi yfir í bjór, sem hefur gerst, þá er ekki hægt að setja samnefnara við það og segja: Aukin neysla samasem aukin samfélagsleg vandamál.

En ókei, gefum okkur að einhver samnefnari sé þarna á milli, að samfélagsleg vandamál hafi komið upp í kjölfarið og aukinn kostnaður fyrir samfélagið. Þá verðum við að horfa til þess hver heildaráhrifin af frumvarpinu eru. Ef við aukum forvarnir og minnkum þar af leiðandi eftirspurnarþáttinn á móti, ef við stöndum vörð um þá sem geta ekki fótað sig með vímuefni — ég er alfarið á þeirri skoðun að hið opinbera eigi ekki að grípa inn í sjálfsákvörðunarrétt fólks, hvort það neytir efna sem skaða líkamann.

Ég er aftur á móti hlynntur því að aðstoða fólk ef það nær ekki að fóta sig út af því að við höfum ákveðna samfélagslega ábyrgð. Við aðstoðum þá sem geta ekki aðstoðað sig sjálfir. Það er almenn samstaða um það. (Gripið fram í.) Við eigum því ekki að bregðast við með því að banna eða takmarka neyslu sjálfráða einstaklinga, eða banna fólki að skaða sjálft sig.

Við eigum frekar að setja aukna peninga — og hægt væri að taka þá af áfengisgjaldinu, eins og SÁÁ benti á — í að aðstoða fólk sem getur ekki aðstoðað sig sjálft. Þar hafa stjórnvöld, þau sem síðast stjórnuðu og þar á undan og þar á undan, alvarlega brugðist skyldu sinni.