144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[21:19]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það eru faldar aukaverkanir af aðgerðum hins opinbera. Hið opinbera ákveður að minnka eftirspurn eftir áfengi með því að hafa verðið á áfenginu hátt, sem vissulega hefur áhrif á það að eftirspurnin minnkar eftir eitthvað ákveðið — já, við getum kallað það að byrja að lækka áfengiskaupaaldurinn til þess að unglingar fái …

Ég vil bara benda á þá staðreynd að það eru faldar aukaverkanir. Ég get sagt um sjálfan mig að þegar ég prófaði kannabis fyrst sá ég að það var nokkuð ódýrt miðað við áfengi. Sem betur fer átti ég góða foreldra sem töluðu við mig og bentu mér á að það væri gott að bíða með þetta, sem ég gerði að mestu leyti þangað til ég kláraði menntaskóla. En þetta er aldurinn. Þetta er eitt af þeim atriðum sem er mikilvægt að nefna og benda ungu fólki á, að ef þau ætla að prófa og eru forvitin, og auðvitað eru þau forvitin, að bíða með það. En það eru faldar aukaverkanir, því að þegar áfengi er hækkað getur neysla á öðrum efnum aukist, m.a. landa. Kannski hv. þingmaður geti sagt okkur frá einhverju sem hún hefur rætt við ungt fólk í dag. Ég veit ekki hvernig landaneyslan er í dag en þegar ég var að byrja að prófa áfengi, sem var frekar seint á þeim tíma eða í kringum 15 ára aldur, þá var það landi af því að aðgengi að honum var gott, það var best að honum, það var miklu auðveldara að redda sér landa en áfengi þar sem áfengiskaupaaldurinn var 18 ár. Landasalinn spurði ekkert að því.