144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[21:21]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað er gott að ræða þessa hluti, þess vegna erum við hér í kvöld. Ég hef sjálf ekki fundið þörf hjá mér til að prufa annað en áfengi, en fólk í kringum mig sem notar eiturlyf frekar en áfengi segir að það fái meiri áhrif, meiri vímu út úr því að nota eiturlyfin. Það segist vera að sækja í áhrifin af áfenginu og finnst í raun hagkvæmara út frá, hvað á maður að segja, vímumagninu að neyta eiturlyfja.

Með landasöluna hefur það oftast verið þannig í kringum mig að það hefur verið ódýrara að kaupa landa og ungt fólk hefur verið tilbúið að taka mikla áhættu til þess að neyta landa. Það hefur ekki verið að spá í hvaðan hann kemur, hvort aðilinn sé að gera þetta í gegnum klósett eða í gegnum tunnur í kjallara eða hvað.

Eins og ég segi skiptir fræðslan miklu máli, en sú fræðsla sem ég fékk þegar menn komu í skólann og töluðu um hversu mikið þeir hefðu náð sér upp úr sinni fíkn virkaði ekki jafn mikið á mig og þegar ég talaði við félaga mína, af því að við vorum að horfa á einstakling sem hafði náð sér upp úr fíkninni. Kannski hefði verið betra fyrir okkur að hitta einhvern sem var algjörlega búinn að ná botninum og var að byrja að byggja sig upp. Þetta eru ýmsir punktar sem við þurfum að horfa til í þessari umræðu.