144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[21:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ef svo er, sem mér heyrist, að hæstv. forseti sé að slá botninn í þessa umræðu, hlýt ég að spyrja hvort ég megi álykta af því að ekki séu fleiri á mælendaskrá og þar á meðal ekki hæstv. heilbrigðisráðherra.

Ég vil þá vekja athygli á því við lok þessarar umræðu að mjög ítrekað var óskað eftir þátttöku hæstv. heilbrigðisráðherra og reyndar á köflum hæstv. félagsmálaráðherra á þeim dögum sem umræðan fór fram. Það er því athyglisvert ef umræðunni verður engu að síður að ljúka án þess að sá ráðherra sem fer með heilbrigðismál, með lýðheilsumál, sjái ástæðu til þess að koma hér og svara fyrir hina opinberu heilbrigðisstefnu sem hann er ábyrgðarmaður fyrir og þær mótsagnir sem að okkar mati margra eru fólgnar í því að frumvarpið sé borið fram þvert á hana.

Það eru þá ákveðin skilaboð ef hæstv. ráðherra sér ekki ástæðu til þess, treystir sér ekki til þess eða finnst óþægilegt að vera settur í það samhengi að ræða þessa hluti. En mér finnst það umhugsunarefni að við skulum þá vera svona stödd (Forseti hringir.) gagnvart því hvernig forsvar þessara mála er.