144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[21:24]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég fagnaði því hér síðdegis að hæstv. heilbrigðisráðherra skyldi koma til þings til að vera viðstaddur þessa umræðu eftir að við höfðum margsinnis en árangurslaust óskað eftir því. Að sjálfsögðu átti hann ekki að sitja hér sem sýningargripur eða hlustandi, einvörðungu til að hlusta á það sem hér færi fram, við vildum heyra hans sjónarmið, heyra hans afstöðu til sjónarmiða Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, landlæknisembættisins, Norðurlandaráðs og síðan til sinna eigin orða.

Vísað hefur verið til þess sem stendur á vefsíðu Stjórnarráðsins frá 24. janúar í ár þar sem heilbrigðisráðherra lýsir sjónarmiðum sem ganga í berhögg við það frumvarp sem var hér til umræðu. (Forseti hringir.) Ég sakna þess að við fengjum ekki að heyra afstöðu hæstv. heilbrigðisráðherra til þessa máls.