144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[21:55]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða).

Hér er verið að rýmka til fyrir lífeyrissjóði með auknum heimildum til fjárfestinga. Eins og frummælandi, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Frosti Sigurjónsson, fór mjög vel yfir í framsögu sinni er verið að veita lífeyrissjóðum heimild til að fjárfesta í verðbréfum sem skráð eru á markaðstorgi fjármálagerninga og fjölga þannig fjárfestingarkostum, auka fjölbreytileika fjárfestinga og dreifa þannig áhættu sem felst í dreifðara eignasafni.

Hér er fyrst og fremst um að ræða markaðstorg fyrir smærri og meðalstór fyrirtæki, sem eru hagkerfi okkar gríðarlega mikilvæg, og aukið aðgengi að fjármagni. Það gefur þeim færi á heilbrigðari fjármögnun og auknum fjárfestingartækifærum þannig að til lengri tíma stuðlar þessi breyting að aukinni verðmætasköpun. Það má segja, virðulegi forseti, að þar hangi saman þessir hagsmunir og samfélagsleg ábyrgð lífeyrissjóðanna að taka þátt í að efla okkar hagkerfi.

Lífeyrissjóðakerfið í þeirri mynd sem við þekkjum má rekja aftur til sjöunda áratugarins en þá voru stofnsettir atvinnutengdir lífeyrissjóðir með skylduaðild. Íslenska kerfið er stundum sagt byggja á þremur stoðum, almannatryggingakerfi, lífeyrissjóðakerfinu, þessu lögbundna, og svo frjálsum sparnaði, viðbótarlífeyrissparnaði. Ef tekið er mið af umræðu og skýrslum er fyrirkomulag lífeyrissparnaðar annarra þjóða oft og tíðum ólíkt, en það má líka finna hliðstæður, t.d. mjög keimlík kerfi á Norðurlöndunum.

Ólík dæmi eru gegnumstreymissjóðir þar sem sá vandi kemur upp að með hækkandi lífaldri reynir enn meira á fyrstu stoðina, þ.e. almannatryggingakerfið. Í slíku gegnumstreymiskerfi þurfa því eftirlaunaþegar að treysta á þá sem eru á vinnumarkaði og greiða fyrir þeirra eftirlaun.

Í okkar sjóðakerfi greiðum við í sjóð. Mikilvægt er að haga lagaumhverfinu með þeim hætti að mögulegt sé að ávaxta sjóðinn þannig að hann standi undir lífeyri eftirlaunaáranna.

Í 20. gr. lífeyrissjóðslaganna segir, með leyfi forseta:

„Iðgjöld og annað ráðstöfunarfé lífeyrissjóðs skal ávaxta sameiginlega með innlánum í bönkum og sparisjóðum eða í framseljanlegum verðbréfum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu.“

Hins vegar er í 36. gr. laganna, sem þetta frumvarp nær til, breyting á, þar er kveðið á um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða þar sem fjárfestingarheimildir eru listaðar upp, þ.e. í hverju lífeyrissjóðir geta fjárfest eða ávaxtað uppsafnað fé. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórn lífeyrissjóðs skal móta fjárfestingarstefnu og ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu. Stjórn lífeyrissjóðs er heimilt að móta sérstaka fjárfestingarstefnu fyrir hverja deild í deildaskiptum sjóði.“

Þannig er lífeyrissjóði heimilt að ávaxta fé sitt með skilgreindum hætti samkvæmt þessari grein og takmarkast við þá liði sem taldir eru þar upp, þar með talið ríkisvíxlar og ríkisskuldabréf sem eru talin öruggir fjárfestingarkostir, skuldabréf tryggð með veði í fasteign. Þar eru hámörk útlistuð þannig að lagaumhverfið er býsna strangt þegar kemur að hlutfalli eigna og þeim kostum sem heimilaðir eru.

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu. Til að mynda var lífeyrissjóðum gefin heimild árið 2008 til fjárfestinga í óskráðum verðbréfum, þ.e. heimildin var hækkuð úr 10% í 20%. Helsta ástæðan var kannski sú að í ljósi breyttra aðstæðna var minna af skráðum bréfum í boði.

Árið 2012 voru þannig óskráð bréf 12% af heildareignum lífeyrissjóðanna ef skoðaðar eru upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu.

Í þessu frumvarpi er lagt til að með breytingum á 36. gr. fái lífeyrissjóðir auknar heimildir og megi fjárfesta í verðbréfum sem verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga til jafns við verðbréf á skipulegum markaði. Með slíkri heimild mun fjárfestingarkostum fjölga og með auknum fjölbreytileika og möguleika til að fjárfesta í auknum mæli í smærri og meðalstórum fyrirtækjum mun það gera lífeyrissjóðum kleift að taka betur þátt í að efla hagkerfið og má þannig færa rök fyrir samfélagslegri ábyrgð í fjárfestingarstefnu.

Þá geta lífeyrissjóðir betur dreift áhættunni. Um leið batnar aðgengi slíkra fyrirtækja að fjármagni og þannig stuðla lífeyrissjóðir að auknum hagvexti til lengri tíma litið og taka aukinn þátt í að byggja upp atvinnulífið.

Fjármálaeftirlitið hefur hingað til túlkað 2. málslið 2. mgr. 36. gr. þannig að verðbréf sem verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga teljist ekki til verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum markaði. Því hefur hingað til verið túlkað svo að þar sé um að ræða hver önnur óskráð verðbréf.

Það kemur fram í frumvarpinu að Kauphöll Íslands lét gera greiningu á því hvaða verndarhagsmunir og skilyrði liggja að baki í samanburði við skipulega markaði. Frummælandi málsins hér, hv. þm. Frosti Sigurjónsson, fór mjög vel yfir þetta í sinni ræðu þannig að ég ætla ekki að endurtaka það. Það kom vel fram í máli hv. þingmanns að virk verðmyndun, gagnsæ upplýsingagjöf, bann við markaðssvikum og eftirlit og skráningarskilyrði eru til jafns við verðbréf á skipulegum markaði. Niðurstöður þeirrar greiningar leiða í ljós að þær kröfur sem gerðar eru varðandi rekstur markaðstorgs fjármálagerninga eru að mestu leyti sambærilegar þeim kröfum sem gerðar eru á þessum skipulega markaði.

Virðulegi forseti. Sjóðasöfnun er mikil og hrein eign lífeyrissjóðanna er meiri en nemur vergri landsframleiðslu, u.þ.b. 130%, og því er mikilvægi sjóðanna í efnahagslegu samhengi mikið og ekki síður sú ábyrgð sem fylgir því að ávaxta fé með ábyrgum og öruggum hætti.

Eins og áður segir er hér verið að rýmka heimildir lífeyrissjóðanna til að fjárfesta í verðbréfum sem verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga og þannig stuðlað að langtímahagvexti sem hangir saman við framtíðartilvist sjóðanna sem byggir síðan á aukinni verðmætasköpun til að þeir geti þjónað hlutverki sínu.

Ég er meðflutningsmaður á þessu frumvarpi og ég hlakka til að fá málið til efnahags- og viðskiptanefndar til frekari skoðunar og umsagnar.