144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[22:03]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Í þessu máli loga mörg viðvörunarljós og hringja margar viðvörunarbjöllur og er ástæða til að hvetja hv. efnahags- og viðskiptanefnd til að ganga vel úr skugga um það hvort ástæða sé til að ráðast í þá breytingu sem er lögð til, og ekki síst að kanna afstöðu Fjármálaeftirlitsins til þess. Það er mikilvægt að við þingmenn séum ekki að fara á svig við það sem Fjármálaeftirlitið ráðleggur í þessum efnum frekar en öðrum.

Ástæðan fyrir því að viðvörunarljósin loga er sú að hér er auðvitað góður vilji á ferðinni. Það er vilji til að skapa leiðir til fjármögnunar fyrir fyrirtæki í nýsköpun, smærri fyrirtæki og meðalstór fyrirtæki. Þegar ég stóð í sporum hv. þm. Frosta Sigurjónssonar sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar voru fjölmörg einkafyrirtæki sem lögðu mjög að mér að gera þessa breytingu á lögum, augljóslega í því skyni annars vegar að skapa viðskipti fyrir sig sjálf og hins vegar greiða séraðgang að fjármálum. Það eykur þær skyldur okkar að rýna málið vel og kanna hvort það sé í þágu lífeyrissjóðanna og þeirra sem eiga sparnaðinn, ekki síst vegna þess að við eigum auðvitað langa sögu af því að menn hafi með góðum fyrirætlunum og góðum ásetningi haft uppi hugmyndir um að fjárfestingar í tilteknum tegundum fyrirtækja eða tilteknum atvinnugreinum væru góðar fyrir langtímahagvöxt og annað þess háttar, eins og við heyrum hér í umræðunni. Dæmi um slíkt er laxeldið á sínum tíma, loðdýraræktin og fleiri fyrirbæri sem fóru því miður lóðbeint á höfuðið og tapaðist verulegt fjármagn sem þangað var ráðstafað. Þess vegna er enn frekari ástæða fyrir efnahags- og viðskiptanefnd til að fara sérstaklega gætilega.

Önnur ástæða fyrir því er sú að maður hlýtur að spyrja sig að því þegar svo stutt er síðan lífeyrissjóðirnir töpuðu gríðarlegum fjárhæðum á fjárfestingu hvort lærdómurinn af því sé sá að við eigum að beina þeim frekar í verðbréf sem minni kröfur eru gerðar til en til þeirra sem eru skráðir á aðallista. Ég vil ekki á þessu stigi útiloka neitt. Ég segi aðeins að margt í þessu sambandi gefur sérstakt tilefni fyrir nefndina til að fara vandlega yfir málið og kanna í þaula hvort þetta sé skynsamleg ráðstöfun, m.a. vegna þess að það hefur frá hruni verið unnið að bæði yfirferð yfir það hvað fór úrskeiðis í lífeyrissjóðunum í aðdraganda efnahagshrunsins og að heildarendurskoðun á löggjöfinni. Ég held að eðlilegt sé að við veltum því fyrir okkur hvort breyting af þessu tagi, ef það væri niðurstaðan að bestu manna yfirsýn að peningum lífeyrisþega sé vel varið í þessi smáu og meðalstóru fyrirtæki sem einkanlega er hér vísað til, hvort það þurfi þá ekki að vera hluti af einhverri heildarsýn, einhverri heildarstefnumörkun, einhverri heildarendurskoðun á lífeyrissjóðunum eða hvers vegna við ættum í þinginu að taka þennan eina þátt út úr og fara að leggja hann upp með öðrum hætti.

Það sem þarf væntanlega líka að fara yfir er sá markaður sem er verið að opna og það er náttúrlega bara markaður hjá einu tilteknu einkafyrirtæki, Kauphöll Íslands hf., sem er ekki opinber aðili í neinum skilningi og það þarf þess vegna að gæta sérstaklega að því að hér sé ekki verið að mismuna aðilum, hvort sem þeir eru í viðskiptum við þetta tiltekna einkafyrirtæki, Kauphöll Íslands hf., eða einhver önnur einkafyrirtæki með sína fjármálagjörninga. Þess vegna held ég að nauðsynlegt sé að a.m.k. Samkeppniseftirlitið auk Fjármálaeftirlitsins verði fengið til að skoða þetta mál í þaula.

Það verður ekki fram hjá því litið að ein af ástæðunum fyrir því að þessum málum hefur verið skipað á þann hátt að lífeyrissjóðirnir hafa fjárfest í skráðum aðilum, stórum fyrirtækjum sem sæta eftirliti annarra aðila, er að lífeyrissjóðirnir hafa takmarkaða aðstöðu til þess að greina fyrirtæki, að fylgjast með rekstri þeirra og kannski viljum við ekki að þessir fáu stóru eigendur fjármagns séu mikið ofan í rekstri einstakra smærri og meðalstórra fyrirtækja. Ef það er vilji meiri hlutans í þinginu held ég að við þurfum að ræða það alveg sérstaklega, eða hvort það sé ekki önnur skipan mála, þar sem eru fjárfestingarsjóðir sem eru í tengslum við markaðinn, eru með mannafla og aðstöðu til að fylgja eftir slíkum fjárfestingum og séu sá valkostur sem lífeyrissjóðirnir eigi fremur að fjárfesta í en að byggja upp sérstakar fjárfestingardeildir hjá sér með þeim mannafla og sérfræðiþekkingu sem til þarf. Því mun auðvitað fylgja verulegur kostnaður fyrir sjóðina og það þyrfti þá a.m.k. að vera algerlega tryggt að á móti því umstangi öllu kæmu tekjur.

Ég vil síðan ítreka að þetta er mál sem ég veit að er af hálfu flutningsmanna af góðum huga flutt en vegna þess að það snertir gríðarlega stórar fjárhæðir, því að hvert prósent í fjárfestingarheimildum hjá lífeyrissjóðunum hygg ég að sé eitthvað á þriðja tug milljarða króna og skiptir verulegu máli fyrir grundvallarhlut eins og lífeyrisrétt okkar þegar við hverfum af vinnumarkaði, þarf að fara mjög varlega og virða í hvívetna þau sjónarmið sem fram kunna að koma í umfjöllun nefndarinnar frá eftirlitsaðilum. Ef eftirlitsaðilar hafa engar athugasemdir við málið þá mælir það að sjálfsögðu frekar með því að þetta sé eitthvað sem eigi að taka til frekari skoðunar. En ég árétta að ef eftirlitsaðilar hafa athugasemdir við það tel ég að menn eigi ekki að fara áfram með málið yfir höfuð.