144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[22:11]
Horfa

Flm. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og tek undir flest sem hann kom inn á í henni. Ég held að hann hafi bent þar á mjög mikilvæg atriði.

Það er náttúrlega alveg rétt að við þurfum að gæta mjög vel að öryggi í fjárfestingu lífeyrissjóða. Að sjálfsögðu verður þetta frumvarp borið undir alla umsagnaraðila, Fjármálaeftirlitið og allir verða kallaðir til sem hafa áhuga á því að tjá sig um það og geta þá komið með ábendingar um hvað megi betur fara. En er hv. þingmaður ekki sammála mér um að vandi lífeyrissjóðanna í dag er sá að það er vandasamt að varðveita kaupmátt 2.700 milljarða sjóðs? Það er mjög vandasamt verkefni og það verður vandasamara innan hafta og það er vandasamt þegar fábreytni er í valkostum með fjárfestingar. Það getur bæði orðið til eignabóla í þeim fáu hlutabréfum sem skráð eru á aðallista og þau mega fjárfesta í og einnig leita þeir mjög mikið í óskráð bréf og nú er sú heimild sjóðanna að fjárfesta í alveg óskráðum bréfum sem uppfylla ekki neinar kröfur neins markaðar um gagnsæi, um upplýsingaskyldu eða innherjasvik aukin í 20%, þótt þau bréf uppfylli að sjálfsögðu reglur hlutafélagalaganna. Við erum að tala um að reyna að búa til hvata fyrir félög til að uppfylla meiri kvaðir, meiri kröfur og búa til úrval fyrir lífeyrissjóðina. Við erum ekki að skylda þá til að fjárfesta í neinum slíkum fyrirtækjum. Við erum að skapa meira val. Er hv. þingmaður sammála mér um að það geti verið jákvæð þróun fyrir lífeyrissjóði landsins?