144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[22:15]
Horfa

Flm. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar og vil beina annarri spurningu til hans. Það er eitt áhyggjuefni sem ég held að við þurfum sem Íslendingar að velta fyrir okkur. Öll fyrirtæki, stór og smá, og allir starfsmenn í fyrirtækjum, stórum og smáum, greiða iðgjöld í lífeyrissjóðina, það má nánast jafna því við skatt. Í sumum löndum greiða menn skatta og eru með þessi gegnumstreymiskerfi sem halda uppi þeim sem eru komnir á eftirlaun, en hérna erum við með uppsöfnunarkerfi. Greidd eru iðgjöld sem eru vel yfir 100 milljarðar á ári, kannski um 130–150 milljarða á ári, ætli það séu ekki um 100 milljarðar, notum það til viðmiðunar.

Ef 2/3 af þessum 100 milljörðum koma frá smáum og meðalstórum fyrirtækjum og þau þurfa að leggja það fram og geta minna gert í öðru sem stuðlar að rekstri fyrirtækjanna, markaðssókn eða vöruþróun, vegna þess að þetta fer í sameiginlega sjóði, er þá ekki varasamt að fjárfesta ekkert af því inn í litlu og meðalstóru fyrirtækin heldur einungis inn í stór fyrirtæki sem geta aðeins hækkað í verði en ekki ráðið fleira fólk og ekki skapað hagvöxt eins hratt og lítil og meðalstór fyrirtæki? Ég veit að hv. þingmanni er alveg kunnugt um að það eru lítil og meðalstór fyrirtæki sem geta vaxið hraðast. Það er viðurkennt að þau eru rót hagvaxtar í framtíðinni. Þetta er stór aðili, lífeyrissjóðakerfið, ég held að hver lítill lífeyrissjóður skipti kannski ekki máli en þegar við erum að tala um þá alla samanlagt ávaxta þeir 2.700 milljarða en neita síðan hagkerfinu um að setja niður kartöflur, að setja niður það sem getur vaxið hraðar og þá verður hagkerfið minna. Það er líka áhyggjuefni. Ég held ekki að þessi breyting muni leiða til neinnar stórrar breytingar á því. Ég held að lífeyrissjóðir þurfi að líta víðar yfir ef þeir ætla að taka þátt í nýsköpunarsjóðum, eins og ég held að hv. þingmaður hafi nefnt, og jafnvel í rannsóknum og það þarf að skoða þau mál. Þetta er aðeins eitt skref af mörgum sem við þurfum að skoða. Getur hv. þingmaður ekki verið sammála mér um að þetta sé skref í rétta átt?