144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[22:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar einföldu skoðunar um lífeyrissjóði landsmanna og þá 2.700 milljarða sem þar eru að ákaflega mikilvægt sé að hafa augun á boltanum og hafa markmiðin skýr. Markmið lífeyrissjóðanna á aðeins að vera eitt: Að ávaxta fjármunina sem eru í þeim. Við getum haft alls konar hugmyndir um önnur göfug markmið eins og það að stuðla að nýsköpun eða fjárfesta í litlum fyrirtækjum eða stuðla að byggðajöfnun eða jafnrétti á milli kynslóðanna, bæta úr húsnæðismálum, laga heilbrigðiskerfið, alls konar verðug markmið má finna og ætla lífeyrissjóðunum eitthvert hlutverk í því. En um leið og við byrjum að gera það byrjum við að draga úr ávöxtun þeirra og þar með að rýra lífskjör okkar í framtíðinni.

Ég er þeirrar skoðunar að við stjórnmálamenn eigum ekki að reyna að hafa miklar skoðanir á því í hverju menn eiga að vera að fjárfesta. Ég tel raunar að það sé ástæða til að efast um það að lífeyrissjóðirnir yfir höfuð búi yfir mannafla og sérfræðiþekkingu eins og þeir eru skipulagðir núna til að leggja mat á alla þá flóknu fjárfestingarkosti sem með þessum hætti opnuðust og það væri í sjálfu sér kerfisbreyting. Lífeyrissjóðirnir kaupa auðvitað fjölmarga fjármálagerninga sem stuðla að fjármögnun meðalstórra fyrirtækja og smærri fyrirtækja, bæði í gegnum fjárfestingar hinna stærri, fjárfestingarsjóða, fjármögnun úr viðskiptabankakerfinu o.s.frv. Það er auðvitað ekki hægt að segja að lífeyrissjóðirnir séu ekki hluti af þessu efnahagskerfi í heild sinni.