144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Í gær fékk ég svör við skriflegri fyrirspurn frá hæstv. fjármálaráðherra. Fyrirspurnin varðaði skráningu viðskiptasögu einstaklinga hjá fjármálastofnunum. Í fyrirspurninni spurði ég hæstv. ráðherra hvort viðskiptabankar væru með sameiginlegan gagnagrunn um viðskiptasögu einstaklinga. Í svörum kemur fram að svo sé ekki. Hins vegar hafa bankar aðgang að gagnasöfnum upplýsingastofa og í því samhengi má benda á skuldastöðukerfi og vanskilaskrá Creditinfo hf.

Einnig spurði ég hæstv. ráðherra hvort viðskiptasaga einstaklinga hefði verið færð frá gömlu bönkunum, þ.e. þrotabúunum, yfir í nýju bankana. Ástæða þess að ég spyr um þennan þátt er sú að viðskiptasaga einstaklinga er mjög persónulegar upplýsingar sem geta verið viðkvæmar, upplýsingar sem eiga ekki að fara neitt án samþykkis þess er þær varða.

Í svörum kemur fram að öll gagnasöfn með upplýsingum um viðskiptasögu einstaklinga voru færð frá gömlu bönkunum yfir í nýju bankana.

Hæstv. fjármálaráðherra leitaði til Fjármálaeftirlitsins við vinnslu fyrirspurnarinnar. Fjármálaeftirlitið ver þessa aðgerð og vísar í neyðarlögin sem sett voru til að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði vegna sérstakra aðstæðna.

Í þessu samhengi hef ég velt fyrir mér nokkrum þáttum. Hvað varð um stöðu neytandans í þessu máli? Hvað varð um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga?

Gerum okkur grein fyrir að margir íslenskir neytendur á íslenskum heimilum fóru jafnframt illa út úr því sem gerðist hér haustið 2008, m.a. vegna ýmissa þátta innan fjármálakerfisins. Það veit Framsóknarflokkurinn og hann hefur ítrekað bent á þá staðreynd hve erfið staða heimilanna er. Þessa dagana berjast samt sem áður aðilar er samþykktu neyðarlögin, hv. þingmenn er samþykktu neyðarlögin, á móti því að heimilin fái eitthvað að gert í sínum málum og að komið verði til móts við skuldastöðu þeirra. Mér finnst það til skammar.