144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Í gær treystu þingmenn sér til að koma hingað upp hópum saman og ræða mál á grundvelli fréttar í DV og ég velti fyrir mér hvort það væri virkilega svoleiðis að það þyrfti ekki annað en að skjóta inn eins og einu fréttaskoti í DV til að menn hópuðust hér upp eins og byssubrenndir til að tala um mál sem eru víðs fjarri því sem kemur fram í þessu ágæta blaði í gær. (Gripið fram í: Ekki víðs fjarri. … ekki boðlegt.) Víðs fjarri, og jú, þetta er boðlegt, hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Og ég hef orðið.

Árið 1982 var sett á sérsveit á Keflavíkurflugvelli sem hafði yfir að ráða hríðskotavopnum. Af hverju? Vegna þess að hér er alþjóðaflugvöllur. Það kemur kannski úr óvæntri átt en flokkurinn sem ég tilheyri hefur verið sakaður um einangrunartilburði. En hvað mundi það þýða ef við stæðumst ekki kröfur sem alþjóðaflugvellir þurfa að búa yfir? Þá væri hér ekkert millilandaflug. Hverjir eru einangrunarsinnar hér?

Annað er það að hér hafa hreiðrað um sig glæpasamtök sem hafa alþjóðlegar tengingar. Ætlum við að senda lögreglumennina okkar, þetta fólk sem fórnar fjölskyldulífi sínu og öðru, (Gripið fram í.) berhenta á vettvang? Er það svo? Höfum við meiri áhyggjur (Gripið fram í.) í þessum sal af góðkunningjum lögreglunnar en lögreglunni sjálfri? Á sú stétt sem stóð vörð um þessa stofnun hér þegar hart var í ári það skilið að verið sé að sá fræjum tortryggni í hennar garð í þessu húsi? (Gripið fram í.) Ég held ekki, þingmenn góðir.

Ég hef saknað þess mjög að menn skuli ekki setja á laggirnar fésbókarsíðu þar sem góðkunningjar lögreglunnar eru hvattir til að skila inn vopnum sínum.